Innlent

Yndisleg ástarsaga öðlast eilíft líf

Hrund Þórsdóttir skrifar
Lokaverkefni Sigríðar Þóru Ásgeirsdóttur, sem var að útskrifast úr kvikmyndaskóla í Bandaríkjunum, er heimildarmynd um ástarsögu afa hennar og ömmu. Afi hennar lést áður en tökum lauk en Hrund Þórsdóttir hitti Þóru, eins og hún er kölluð, og Arnbjörgu, ömmu hennar, í dag.

Arnbjörg Sigtryggsdóttir og Lúðvík Hafsteinn Geirsson létu gifta sig á lengsta degi ársins fyrir 25 krónur og þau voru gift í 72 ár.

Þóra, eins og hún er kölluð, ætlaði upphaflega að gera myndina um afa sinn og ömmu fyrir fjölskylduna en áttaði sig á að hún var með gott efni í höndunum. „Mér þykir ofboðslega vænt um að þetta sé mitt fyrsta verkefni því það er svo persónulegt. Afi og amma eru náttúrlega svo dýrmæt og við erum miklir vinir þannig að það að hafa gert þetta með þeim er ómetanlegt,“ segir Þóra.

Hvað stendur upp úr?

„Hvað það var gaman að fylgjast með þeim. Afi var sérstaklega opinn fyrir myndavélinni og hefði örugglega orðið fínn í sjónvarpi á sínum tíma,“ bætir Þóra við hlæjandi.

Lúðvík hefði orðið 99 ára í vor en lést áður en tökum á myndinni lauk svo Þóra kláraði verkefnið með ömmu sinni. Í meðfylgjandi sjónvarpsfrétt er rætt við Þóru og Arnbjörgu og birt brot úr myndinni, sem kallast Holding hands for 74 years.

Myndin er ekki komin í dreifingu en unnið er að því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×