Innlent

Vilja afnema gjaldskyldu í miðbænum

Samtök kaupmanna og fasteignaeigenda við Laugaveg vilja að borgin hætti að innheimta gjald fyrir bílastæði í miðbænum og taki þess í stað upp bílastæðaklukkur að evrópskri fyrirmynd. Björn Jón Bragason, framkvæmdastjóri samtakanna segir að bílastæðaklukkan eða framrúðuskífan hafi reynst vel víðs vegar á meginlandi Evrópu og einnig á Akureyri.

„Markmiðið með gjaldtökunni hefur aldrei verið annað en að tryggja sem best flæði í stæðin og það eru til betri leið til að tryggja það heldur en innheimta gjald, en gjaldið er eitt og sér hemill á að fólk komi í bæinn,“ segir Björn Jón.

Hann bendir á að verslun í miðbænum hafi átt í vök að verjast á umliðnum árum og áratugum. Grípa þurfi til róttækra aðgera til að efla miðbæinn á nýjan leik. „Ein leiðin er að afnema gjaldskylduna,“ segir Björn Jón. „Að sama skapi mætti hæglega útbúa um það bil 500 ný bílastæði við Skúlagötu, sem væru þá langtímastæði og gætu gagnast starfsmönnum verslana og fyrirtækja í miðbænum.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×