Skoðun

SÁÁ tók á móti mér

Pálmi Gunnarsson skrifar
Það er ófrávíkjanlegur hluti af lífsgöngunni að þurfa einhvern tímann að horfast í augu við erfiðar aðstæður. Ástvinir veikjast og deyja, við verðum fyrir andlegum og líkamlegum áföllum eða missum fótanna með einum eða öðrum hætti. Þá er gott að eiga góða að, einhverja sem rétta hjálparhönd á erfiðum tímum. Fæstum sem fá sér í tána í fyrsta sinn dettur í hug að fram undan geti verið ferli sem í versta tilfelli leiðir til dauða. Fæstir hugsa um það við fyrstu jónu, hassreyk eða inntöku örvandi efna að lokakaflinn í lífsgöngunni geti mögulega orðið andleg og líkamleg örkuml þannig að ekki verði aftur snúið.

Ég er einn af þeim sem segja má að hafi ánetjast fíkninni á fyrsta fylleríi. Næstu áratugir voru dagleg barátta sem á endanum var orðin upp á líf og dauða. Sjúklegt ástand þar sem vanmátturinn var algjör. Allt sem ég vildi standa fyrir sem manneskja var ógerlegt af því að fíknin réði ríkjum. Ég veit í dag að ef ekki hefði verið fyrir SÁÁ hefði ég ekki komist lífs af úr þeim hildarleik. Þegar ég leitaði hjálpar hjá SÁÁ var tekið á móti mér og að mér hlúð, andlega og líkamlega. Leiðin til bata tók sinn tíma, bylturnar voru nokkrar, en dyr SÁÁ stóðu opnar og ég gat leitað hjálpar á ný.

Það eru tæplega nítján ár síðan ég gekk dálítið boginn út í lífið eftir dvöl á Vogi og í framhaldinu Staðarfelli. Uppgefinn eftir áratugalanga neyslu en tilbúinn fyrir nýtt líf. Ég er einn af þúsundum þakklátra einstaklinga sem lifa góðu lífi í dag fyrir tilstilli þessara einstöku samtaka. Samtaka sem voru stofnuð af áhugafólki um líf án áfengis og vímuefna, fólki sem vissi hvað við var að etja og tók af skarið til hjálpar. Ég hvet alla Íslendinga til að leggja lið landssöfnun SÁÁ, Áfram Vogur, til styrktar Sjúkrahúsinu Vogi. Höfum í huga að það eru meiri líkur en minni á því að á einhverjum tímapunkti í lífi okkar muni einhver okkur nákominn ánetjast fíkniefnum og þurfa á aðstoð SÁÁ að halda.




Skoðun

Sjá meira


×