Innlent

Íslenski jólasveinninn sem kætir veik börn í El Salvador

Þorgils Jónsson skrifar
Gleðigjafinn Einar hitti börnin á Benjamin Bloom barnaspítalanum um daginn, líkt og hann hefur gert frá árinu 2001. Hann segir mikilvægt að hafa jólasveininn innra með sér, en ekki bara að utan.
Gleðigjafinn Einar hitti börnin á Benjamin Bloom barnaspítalanum um daginn, líkt og hann hefur gert frá árinu 2001. Hann segir mikilvægt að hafa jólasveininn innra með sér, en ekki bara að utan. Fréttablaðið/EPA
Einar Sveinsson er með frægari Íslendingum þó að mögulega séu fáir sem þekkja hann og hans störf hér á landi. Einar, sem flutti ungur til El Salvador, hefur getið sér nafn í sjónvarps- og kvikmyndabransanum í Rómönsku-Ameríku og kemst í heimsfréttirnar hér um bil á hverju ári þegar hann heimsækir börn á barnaspítölum í heimaborg sinni San Salvador í jólasveinabúningi.

Einar skartar miklu hvítu skeggi þannig að hann er eins og skapaður í hlutverkið, en það eitt og sér er ekki nóg að hans sögn. „Það er ekki nóg að vera eins og jólasveinn að utan, heldur verður þú að vera það að innan líka.“

Einar hefur búið úti í El Salvador frá árinu 1968, en foreldrar hans bjuggu þar á meðan faðir hans vann að jarðhitaverkefnum fyrir Sameinuðu þjóðirnar.

„Ég kom hingað bara til að vera í tíu daga í heimsókn, en það var bara alltof gaman til að fara til baka,“ segir Einar og hlær.

Hann kom sér síðar inn í sjónvarpsbransann og vann mikið með stöðvum, meðal annars frá Bandaríkjunum, og það var upp úr því sem jólasveinastandið fæddist.

„Ég kom heim til Íslands vegna aldamótanna jólin 1999 og það var í fyrsta sinn sem ég hélt jól heima síðan ég flutti burt. Þar kynntist ég blessuðum jólasveinunum okkar upp á nýtt og hugsaði strax með mér af hverju Disney-fyrirtækið hefði ekki tekið upp á sína arma sögurnar um jólasveinana, eins og þeir hafa gert til dæmis með þýsku þjóðsögurnar. Ég ákvað því að verða fyrri til og skrifaði handrit að átta hluta sjónvarpsþáttaröð.“

Í sinni útgáfu færði Einar sögusviðið frá Íslandi á norðurpólinn. Jólasveinarnir urðu átta talsins og aðstoðarálfar aðaljólasveinsins. Hann kynnti verkefnið fyrir sjónvarpsstöðinni Aztec í Mexíkó, sem sló strax til og úr varð þáttaröð í átta hlutum.

„Svo þegar við vorum að prófa leikara í hlutverk jólasveinanna spurði ég hver ætti að leika aðaljólasveininn, en þá sögðu Mexíkóarnir bara við mig: „Þú ert jólasveinninn. Hver annar?“, þannig að ég, höfundurinn, var allt í einu kominn fyrir framan myndavélarnar. Og þetta sló svona í gegn að mitt líf umturnaðist við þetta.“ Þættirnir voru sýndir um gervalla Rómönsku Ameríku.

Í framhaldi af þeirri frægð fór Einar að heimsækja barnaspítala árið 2001, fyrst til að gleðja börn sem höfðu brennst á gölluðum púðurkerlingum og flugeldum sem voru afar algeng á þeim tíma. Síðar tók  Einar þátt í baráttunni fyrir því að banna slíka flugelda. Hann hefur og farið víðar í þeim erindagjörðum, meðal annars til Gvatemala. Börnin eru alltaf jafn glöð að sjá jólasveininn og að sögn Einars er ekki útlit fyrir að hann hætti þessu í bili.

„Ég slepp ekki úr þessu,“ segir hann og hlær sínum smitandi hlátri. „Ég leyfi jólasveininum að lifa í mínum skrokki, en reyni samt alltaf að vera Einar fyrst og fremst.“ 

Bollywood vill jólasveininn

Einar segir margt í pípunum hjá sér á næstunni. Meðal annars hafi indverskir kvikmyndaframleiðendur, frá hinni svokölluðu Bollywood, viðrað við hann áhuga á samstarfi.

„Til mín komu menn frá Bollywood sem vilja semja við mig um að gera kvikmynd um jólasveininn sem gerist hér í hitabeltin,“ segir Einar og bætir því við að ef af verði, muni hluti myndarinnar þó verða tekinn upp á Íslandi.

„Ég er ekki alveg viss um að af þessu verði, en þetta er hugmyndin. Coca Cola eru líka brjálaðir í þetta og vilja sjá handrit fyrir fyrsta apríl þannig að það er komin pressa á mann með að láta þetta ganga.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×