„Ég tel að þetta sé skýrt ákall til Samfylkingarinnar um að horfa til framtíðar,"segir Katrín Júlíusdóttir, fjármálaráðherra og þingmaður Samfylkingarinnar.
Samkvæmt könnun sem framkvæmd var á miðvikudag af 365 fyrir Stöð 2 og Fréttablaðið hefur fylgi Samfylkingarinnar hrunið á síðustu vikum. Fylgi flokksins mælist nú 12 prósent en það var 20 prósent við síðustu könnun.
Katrín, sem nú situr landsfund Samfylkingarinnar, segir að niðurstöðurnar séu ekki óvæntar. Þvert á móti séu þær áminning um þau erfiðu verkefni sem núverandi ríkisstjórn hefur þurft að takast á við.
„Við höfum þurft að takast á við mörg þrælerfið verkefni á þessu kjörtímabili," segir Katrín. „Þessi erfiðu verkefni hafa haldið aftur af okkur þegar kemur að því að ræða framtíðina."
Þannig sé nauðsynlegt fyrir Samfylkinguna að bíta í skjaldarrendurnar og horfa til framtíðar.
„Við erum hér með öflugan landsfund og niðurstöðurnar héðan munu skila góðu fóðri í umræðuna fyrir kosningar," segir Katrín að lokum.
Ný aðferðarfræði var notuð við útreikning á könnuninni. Tilgangurinn er að leiðrétta þær skekkjur sem fjöldi óákveðinna veldur. Alls var hringt í 1.382 einstaklinga, eða þar til náðist í 800 manns samkvæmt lagskiptu úrtaki. Vert er að minnast á að 45 prósent neituðu að gefa upp afstöðu sína til stjórnmálaflokka.
Nauðsynlegt fyrir Samfylkinguna að miðla framtíðarsýn sinni

Tengdar fréttir

Framsóknarflokkur næststærstur - 45 prósent tóku ekki afstöðu
Framsóknarflokkurinn er næststærsti flokkur landsins og fengi tuttugu og eitt prósent atkvæða ef gengið yrði til kosninga í dag. Sjálfstæðisflokkurinn mælist enn stærstur en tapar einum sjötta af fylgi sínu frá því í síðustu könnun fyrir tveimur vikum.

Icesave skýrir fylgismun milli kannana
Icesave málið skýrir fylgismun á stjórnmálaflokkunum milli kannana. Þetta kom fram í máli formanna stjórnmálaflokkanna þegar fréttastofa ræddi við þá í dag.