Skoðun

Foreldrar veri fyrirmynd barna á íþróttaviðburðum

Árni Þór Jónsson skrifar
Af hverju vilja foreldrar hafa börnin sín í íþróttum? Er það út af því að þeir náðu ekki sjálfir að uppfylla íþróttadrauma sína eða er það út af því þeir vilja að barnið þeirra sé í góðum félagsskap og sé að gera það sem það hefur gaman af? Hvort sem svarið er „já“ eða „nei“ við þessum spurningum þá þurfum við alltaf að sýna góðan stuðning og jákvæða fyrirmynd, því eins og flestir vita þá lærir barnið mikið af hegðun foreldra.

Þótt foreldrar séu ekki inni á vellinum þá ber þeim skylda að sýna góðan íþróttaanda líkt og leikmenn inni á vellinum. Vona ég því að foreldrar opni augun við lestur á þessari grein.

Börn á ungum aldri geta verið mjög viðkvæm fyrir athugasemdum og þarf því oftast að passa sig á hvað maður segir við þau, og ekki síður á íþróttaviðburðum. Foreldrar og aðrir áhorfendur verða að muna að þeir eru stuðningsmenn, fólk sem styður liðið sitt áfram með uppbyggjandi athugasemdum hvernig sem gengur. Þeir eiga ekki að hrópa inn á völlinn niðurlægjandi athugasemdir í garð andstæðinganna, þar sem þetta er ekki atburður upp á líf og dauða, heldur eru þetta börn sem hafa gaman af íþróttinni og þurfa sem mestan stuðning svo þau missi ekki áhugann á íþróttinni. Neikvæðar athugasemdir foreldra geta haft áhrif á íþróttaiðkun barnanna, t.d. börn gætu litið á leikinn of alvarlegum augum og gleymt að markmið leiksins er að hafa gaman.

Svo virðist sem þetta sé eitt af vandamálum íþróttafélaga og vantar kannski að upplýsa foreldra betur hjá hverju og einu íþróttafélagi hvernig skuli hegða sér á íþróttaviðburðum hjá börnum. Ég sjálfur hef farið á fjölda marga yngri flokka leiki bæði í körfubolta og í fótbolta og hef ég orðið vitni af því að foreldrar eru ekki lengur að hvetja liðið sitt áfram heldur eru foreldrar beggja liða farnir að keppa hverjir við aðra í stúkunni, og get ég sagt að það voru ekki falleg orð sem ég heyrði.

Ég tel að íþróttafélög geti upplýst foreldra um þetta vandamál með ýmsum aðferðum. Íþróttafélögin gætu búið til bækling um hvað fyrirmynd er og hvað hvatning er mikilvæg fyrir börnin, hvernig foreldrar eiga að hegða sér á leikjum og leggja áherslu á það að börnin eigi að hafa gaman af íþróttinni. Þjálfari gæti sent foreldrum póst rétt fyrir mót þar sem hann minnir þá á að hvetja börnin eða liðið áfram og reyna að forðast ágreining við aðra foreldra úr öðrum liðum.

Að lokum vil ég minna á máltækið: „Það læra börnin sem fyrir þeim er haft.“




Skoðun

Sjá meira


×