Innlent

Leit engan árangur borið

Hödd Vilhjálmsdóttir skrifar
Vel á annað hundrað manns hafa í dag leitað að bandarískum ferðamanni sem ekkert hefur spurst til í tæpar þrjár vikur. Fjölskylda mannsins leigði þyrlu til að aðstoða við leitina, sem hefur engan árangur borið.

Hinn 34 ára gamli Nathan Foley-Mendelssohn hélt af stað í Laugavegsgöngu frá Landmannalaugum þann 10. september síðastliðinn. Talið var í fyrstu að hann hefði verið við fjórða mann en nú er komið í ljós að enginn fór með honum í gönguna eða hefur séð hann frá því þá. Björgunarsveitarmenn hafa í dag fínkembt svæðið á milli Landmannalauga og Álftavatns.

Jónas Guðmundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, segir að vel á annað hundrað manns hafi tekið þátt í leitinni í dag og að svæðið sé erfitt yfirferðar vegna snjós. Hann segir engar almennilegar vísbendingar hafa fundist. „Það hafa fundist leifar af tjaldi og leifar af bakpokahlíf og fleira, sem er verið að skoða hvort mögulega geti verið hans,“ segir hann.

Aðstandendur Mendelsohn komu til landsins fyrir helgi til að aðstoða við leitina og leigðu þyrlu sem notuð hefur verið við leitina í gær og í dag. Leitað verður fram í myrkur í kvöld og ef sú leit ber ekki árangur mun lögreglan á Hvolsvelli ákveða hvert framhaldið verður.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×