Innlent

Íbúum fjölgar mest í Kópavogi og Garðabæ

Magnús Þorlákur Lúðvíksson skrifar
Mest fjölgun íbúa varð í Kópavogi á síðasta ári miðað við heildarfjölda íbúa sveitarfélagsins. Samtals fjölgaði þeim um 474 íbúa sem samsvarar 1,52%. Mest fólksfækkun var í Skagafirði þar sem íbúunum fækkaði um 17 eða 0,42%.fréttablaðið/vilhelm
Mest fjölgun íbúa varð í Kópavogi á síðasta ári miðað við heildarfjölda íbúa sveitarfélagsins. Samtals fjölgaði þeim um 474 íbúa sem samsvarar 1,52%. Mest fólksfækkun var í Skagafirði þar sem íbúunum fækkaði um 17 eða 0,42%.fréttablaðið/vilhelm
Íbúum búsettum á Íslandi fjölgaði um alls 2.010 á fyrstu ellefu mánuðum ársins 2012. Íbúum í Reykjavík fjölgaði um 815 og íbúum í öðrum sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins um samanlagt 1.015 á tímabilinu. Íbúum á landsbyggðinni fjölgaði um 180.

Þetta leiðir nýuppfærð íbúaskrá Þjóðskrár í ljós en stofnunin gefur 1. desember ár hvert út lögbundna íbúaskrá fyrir sveitarfélög landsins. Liggur skráin meðal annars til grundvallar skiptingu fjármuna úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga og þá miðast kosningaréttur íslenskra ríkisborgara sem hafa átt lögheimili erlendis við skrána.

Íbúum fjölgaði í 41 af 75 sveitarfélögum landsins en fækkaði í 34. Hlutfallslega fjölgaði íbúum mest í Eyja- og Miklaholtshreppi á Vesturlandi eða um 18,18%. Þar búa nú 156 einstaklingar. Íbúum fækkaði hins vegar mest í Kjósarhreppi eða um 7,27%. Þar búa nú 204.

Flóahreppur, Svalbarðsstrandarhreppur, Tálknafjarðarhreppur og Bolungarvík voru í hópi annarra sveitarfélaga þar sem íbúum fjölgaði hlutfallslega mikið. Íbúum fækkaði aftur á móti hlutfallslega mikið í Kjósarhreppi, Ásahreppi, Sandgerði, Breiðdalshreppi og Skorradalshreppi.

Sé einungis litið á stærstu sveitarfélög landsins fjölgaði íbúum hlutfallslega mikið í Kópavogi og Garðabæ en fækkaði í Skagafirði og í Ísafjarðarbæ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×