Innlent

Enginn samningsvilji af hálfu sveitarfélaganna

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Ólafur segir sveitarfélögin hafa hafnað flestum hugmyndum samninganefndarinnar.
Ólafur segir sveitarfélögin hafa hafnað flestum hugmyndum samninganefndarinnar.
„Kennarar vinna allt of mikið og skortir tíma til að sinna verkefnum sínum, en þeim hefur fjölgað mikið og áherslurnar breyst."

Þetta segir Ólafur Loftsson, formaður Félags grunnskólakennara, en félagið hefur fundað fjórum sinnum með Sambandi íslenskra sveitarfélaga undir stjórn sáttasemjara síðan samningaviðræður þeirra á milli sigldu í strand fyrir áramót.

Ólafur segir sveitarfélögin hafa hafnað flestum hugmyndum samninganefndarinnar, en meðal þeirra atriða sem Félag grunnskólakennara hefur bent á eru starfslýsingar kennara, jöfnun grunnlauna, nánari skilgreining á starfsdögum, bekkja- og hópastærðir, og endurskoðun ákvæða um endurmenntun kennara.

„Við sömdum á sínum tíma til ársins 2014, en við vorum með ákvæði í okkar kjarasamningi sem sagði að við ættum að fara inn í samninginn og skoða hvernig kennarastarfið hefur verið að þróast á undanförnum árum, álagshluti og fleira," segir Ólafur, og bætir því við að enginn vilji sé af hálfu sveitarfélaganna að koma til móts við samninganefndina.

Í fréttabréfi Félags grunnskólakennara sem kom út á þriðjudag segir að báðum aðilum sé ljóst að grípa verði til róttækra aðgerða til að bregðast við ástandinu, en samningsaðilar séu ekki sammála um hvaða leiðir skuli fara.

Ólafur segir þó heilmargt þurfa að gerast áður en kennarar fari að hugleiða verkfall. „Það er auðvitað eitt af þeim tækjum sem menn hafa ef búið er að reyna allt annað, en við erum ekki komnir á þann stað ennþá."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×