Lífið

Ekki gefa dýrum róandi og djamma

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Björgvin Halldórsson
Björgvin Halldórsson
„Ég á fjóra ketti, Markús Árelíus sem er eins árs, Sheilu og Elvis sem eru bæði um átta ára gömul og svo er það Emma sem er fjórtán ára,“ segir tónlistarmaðurinn og kattavinurinn Björgvin Halldórsson. Kettirnir eru gæfir innikettir en þeim er misilla við flugeldana.

„Við pössum upp á það að draga vel fyrir alla glugga og reynum að hafa dimmt í kringum þá. Við gefum þeim engin lyf og hækkum vel í tónlistinni til að róa þá,“ útskýrir Björgvin. Þá passar hann upp á að gefa þeim vel að borða og vera þeim til stuðnings á meðan lætin ganga yfir.

Björgvin segist vera lítið fyrir flugeldana sjálfur og bætir við að hann hafi ekki keypt flugelda frá því að börnin hans urðu unglingar og spennan við sprengingarnar varð minni. „Ég reyni að styrkja björgunarsveitirnar á annan hátt.Það mætti hafa stóra flugeldasýningu í hverjum bæ þar sem allir bæjarbúar myndu mæta saman og minnka þessar heimasprengingar. Það mætti líka styrkja björgunarsveitirnar beint frá sveitarfélögum. Í mörgum löndum eru þessar sprengingar bannaðar.“

Hann hvetur fólk sem á dýr til að passa þau vel og gæta þess sérstaklega að þau séu inni. „Ég hvet alla til þess að hugsa sérstaklega vel um dýrin sín á meðan lætin ganga yfir og taka þau inn vel á undan látunum sem hefjast um kvöldið. Einnig er mikilvægt fyrir fólk úti á landi að sjá til þess að dýr sem ganga laus séu tekin í hús. Hestar og hundar geta tryllst með ófyrir­sjáanlegum afleiðingum.“

Pétur Örn Guðmundsson
„Ég á tvo hunda, Dívu sem er eins og hálfs árs og Bjart sem er tveggja ára, þau eru bæði enskir cocker spaniel-hundar,“ segir tónlistarkonan Jóhanna Guðrún Jónsdóttir. Hún segist reyna að þreyta hundana sína yfir daginn.

„Ég fer með þá í langan göngutúr yfir daginn og þá helst einhvers staðar fjarri bænum, því fólk er byrjað að sprengja svo snemma á gamlársdag,“ útskýrir Jóhanna Guðrún. Hún segist ekki skilja þá eina eftir heldur taki hún þá með sér í gamlárspartíið.

„Ég myndi aldrei skilja þá eina eftir inni í búri. Ég tek þá með mér í gamlárspartíið, þeir eru líka svo félagslyndir. Hundar eru auðvitað eins misjafnir og þeir eru margir.“

Þá dregur hún fyrir glugga á meðan lætin ganga yfir og passar að vera alltaf nærri hundunum sínum.

Jóhanna Guðrún Jónsdóttir.
„Ég á tvo ketti, það eru þau Snúður og Snælda sem bæði eru sex ára,“ segir tónlistarmaðurinn og kattavinurinn Pétur Örn Guðmundsson. Hann hefur aldrei gefið dýrunum sínum róandi lyf. „Ég gef kisunum ekki róandi lyf. Ég átti einu sinni hund og gaf honum heldur ekki róandi lyf.“

Pétur Örn segir kettina sína vera orðna vana hávaðanum sem fylgi flugeldunum. „Ég loka öllum gluggum og dreg gluggatjöldin fyrir,“ bætir Pétur Örn við. Hann segist einnig knúsa kettina ef hann verður var við mikla hræðslu hjá þeim. „Ég passa að knúsa þá mikið en samt er líka gott að hafa pappír við höndina ef litlu krílin verða fyrir því óláni að pissa á gólfið.“

Hann hvetur fólk til þess að sýna dýrunum sínum ást og umhyggju á þessum erfiðu tímum. „Ekki gefa dýrunum ykkar róandi og fara á djammið.“



Unnur Birna Bassadóttir.
„Ég á tvær kisur, Ísabellu sem er fimm ára og Mikael Skugga sem er tveggja ára,“ segir tónlistarkonan Unnur Birna Bassadóttir. Hún verður því miður ekki með kisunum sínum á gamlárskvöld en gerir allt sem í hennar valdi stendur til að láta þeim líða sem best.

„Ég loka gluggum og dreg fyrir. Einnig ætla ég að láta ljúfa tóna heyrast, það getur róað þær,“ útskýrir Unnur Birna. Hún hefur einnig búið til svokallaðan felustað sem þeim þykir gott að kúra í.

„Ég átti eitt sinn kött sem náði nítján ára aldri og hann var alveg hættur að vera hræddur síðustu árin þannig að ég held að dýrin venjist þessu með árunum.“ Unnur Birna gefur kisunum sínum ekki róandi lyf og hvetur dýraeigendur til að hugsa vel um dýrin sín á svona erfiðum tímum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.