Innlent

Ein milljón til Barnaspítalans

Freyr Bjarnason skrifar
Mikael Torfason og Ólafur Stephensen afhentu Valgerði Einarsdóttur (til hægri) og Sjöfn Hjálmarsdóttur peningagjöfina.
Mikael Torfason og Ólafur Stephensen afhentu Valgerði Einarsdóttur (til hægri) og Sjöfn Hjálmarsdóttur peningagjöfina. Fréttablaðið/GVA
Fréttavefurinn Vísir hefur gefið Barnaspítala Hringsins veglega peningagjöf að upphæð einni milljón króna.

Fólkið á Facebook réð því hversu há upphæðin varð. Fyrir hvert „like“ sem Facebook-síða Vísis fékk söfnuðust 25 krónur og á endanum nam upphæðin einni milljón króna.

Mikael Torfason, aðalritstjóri 365, og Ólafur Stephensen, ritstjóri Fréttablaðins, afhentu Valgerði Einarsdóttur, formanni kvenfélagsins Hringsins, og Sjöfn Hjálmarsdóttur, varaformanni, peningagjöfina, sem rennur beint í Barnaspítalasjóðinn.

„Þetta er frábært. Við þökkum innilega fyrir flott framtak. Við erum stundum orðlaus yfir velvildinni í okkar garð,“ sagði Valgerður við afhendinguna. „Þetta á eftir að koma að góðum notum.“

Hringurinn, sem vinnur að líknar- og mannúðarmálum fagnar 110 ára afmæli 26. janúar næstkomandi. „Við höldum alltaf upp á afmælin okkar með afmælissúkkulaði fyrir félagskonur en kannski verður eitthvað meira gert í tilefni dagsins,“ sagði Sjöfn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×