Innlent

Mismunandi verktakar í mokstrinum

Freyr Bjarnason skrifar
Vertakar frá tveimur mismunandi fyrirtækjum annast snjómokstur í Barðavogi.
Vertakar frá tveimur mismunandi fyrirtækjum annast snjómokstur í Barðavogi. Fréttablaðið/GVA
Verktakar frá tveimur mismunandi fyrirtækjum annast snjómokstur í Barðavogi í Reykjavík.

Í Fréttablaðinu í gær greindi íbúi við Barðavog frá því að snemma dags væri snjór mokaður af gangstéttinni sem hann gengur eftir á leið sinni til vinnu. Seinni partinn þegar hann gengur heim á leið hefur snjó af götunni verið mokað aftur yfir gangstéttina.

„Verktakar sjá um að moka göturnar að fyrirskipun eftirlitsmanna,“ segir Sigurður Geirsson, yfirverkstjóri hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkurborgar, aðspurður. „Það er kannski hægt að gera betur einhvers staðar. Ef menn vinna enn betur saman þeir sem moka gangstéttir og götur, þá er eflaust hægt að laga það.“

Aðspurður segir Sigurður málið snúið hvað Barðavog varðar. Þar er gangstétt öðrum megin sem liggur alveg upp við götuna. Þangað kemur snjórinn óhjákvæmilega þegar hann er skafinn af götunni. „Snjórinn gufar ekki upp, einhvers staðar fer hann. Ef það er hægt að fjarlægja snjóinn eða keyra hann í burtu, væri það gott en það er óheyrilegur kostnaður við það. Það er svipað með hundruð annarra gatna í borginni, litlar götur með stétt öðru megin.“

Spurður hvort mögulegt sé að ryðja snjónum aftur í burtu af gangstéttinni segir hann það erfitt. Tækin fyrir gangstéttirnar séu um þrjú tonn að þyngd og þau ráði ekki við svo mikinn snjó.

Sigurður Geirsson, yfirverkstjóri hjá umhverfis og skipulagsviði borgarinnar, er þakklátur fyrir ábendingu íbúans í Barðavogi og segir að reynt verði að leysa málið eftir bestu getu. „Þetta gerist á hverjum einasta vetri þegar snjóar oftar en einu sinni á dag. Við erum að fara á stjá klukkan þrjú á nóttunni og erum á vakt til ellefu á kvöldin. Við erum þessir góðu jólasveinar sem erum alltaf á ferðinni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×