Innlent

Tölvuþrjótur lokar leikskólasíðu

Freyr Bjarnason skrifar
Krakkarnir í leikskólanum Aðalþingi í hádegismat. Vefsíða leikskólans liggur niðri.
Krakkarnir í leikskólanum Aðalþingi í hádegismat. Vefsíða leikskólans liggur niðri. Fréttablaðið/Valli
Vefsíða leikskólans Aðalþings í Kópavogi, Adalthing.is, hefur legið niðri í um tíu daga vegna þess að tölvuþrjótur er búinn að hakka sig inn á hana.

Guðrún Alda Harðardóttir, sem rekur leikskólann, heldur að þrjóturinn hafi talið að um vefsíðu Alþingis, Althingi.is, hafi verið að ræða.

„Við veltum því fyrir okkur hvaða ástæðu einhver hafi til að hakka síðu einhvers lítils leikskóla á Íslandi,“ segir Guðrún Alda, aðspurð. „Það hafa verið árásir á síðuna áður en þeim hefur aldrei tekist að tæta hana niður fyrr en núna.“

Guðrún Alda segir árásina bagalega, leikskólakennarar og foreldrar finni verulega fyrir henni. „Við notum síðuna mikið sem upplýsingatæki. Þarna erum við með alls konar kannanir á meðal foreldra og upplýsingar. Margir hafa kvartað bæði innanlands og erlendis og bent okkur á að síðan liggi niðri.“

Að sögn Guðrúnar Öldu þykir mörgum erlendum gestum nafnið Aðalþing merkilegt en skólinn heitir eftir götunni þar sem hann stendur að Vatnsenda. „Við vinnum mikið með lýðræði og það er ekki leiðinlegra að heita svona fínu nafni.“

Engar deildir eru í skólanum heldur þing og yfirmenn þeirra kalla sig þingforseta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×