Innlent

Eins árs biðlaun eftir sjö mánaða starf

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Samkomulag um að láta af störfum sem bæjarstjóri fól í sér að litið var svo á að ráðningarsamband bæjarins við Guðrúnu Pálsdóttur væri ekki rofið.
Samkomulag um að láta af störfum sem bæjarstjóri fól í sér að litið var svo á að ráðningarsamband bæjarins við Guðrúnu Pálsdóttur væri ekki rofið. Fréttablaðið/Stefán
Guðrún Pálsdóttir, sem lét af störfum bæjarstjóra í Kópavogi í apríl fyrra og fór á biðlaun út febrúar á þessu ári og tók þá við starfi sviðstjóra hjá bænum þar til það var lagt niður í október, á aftur rétt á tólf mánaða biðlaunum.

Í svari bæjarlögmanns við fyrirspurn Guðríðar Arnardóttur, bæjarfulltrúa Samfylkingar, kemur fram að gert hafi verið samkomulag við Guðrúnu í febrúar 2012 um að láta af bæjarstjórastarfinu. Samkvæmt samkomulaginu „sé sá tími sem Guðrún var frá störfum ekki rof á starfstíma hennar fyrir Kópavogsbæ,“ eins og segir í svari bæjarlögmanns.

Bent er á í svarinu að Guðrún hafi byrjað að vinna hjá Kópavogsbæ 1. janúar 1986 og starfað óslitið fyrir Kópavogsbæ þar til það starf sem hún gegndi sem sviðsstjóri sérstakra verkefna var lagt niður af bæjarstjórninni. Ráðning Guðrúnar sem starfsmanns bæjarins hafi ekki rofnað þrátt fyrir biðlaunatímann.

„Nú er staða lögð niður, og skal þá starfsmaður jafnan fá föst laun, er starfanum fylgdu, greidd í 6 mánuði frá því að hann lét af starfi, ef hann hefur verið í þjónustu sveitafélagsins skemur en 15 ár, en í 12 mánuði, eigi hann að baki lengri þjónustualdur,“ vitnar bæjarlögmaður í kjarasamning og segir að samkvæmt þessu eigi Guðrún rétt til biðlauna í 12 mánuði frá 1. nóvember.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×