Innlent

Röddin fyrir utangarðsfólk

Freyr Bjarnason skrifar
Alma Rut Lindudóttir hefur verið kjörin stjórnarformaður Raddarinnar.
Alma Rut Lindudóttir hefur verið kjörin stjórnarformaður Raddarinnar. MYND/ERNIR EYJÓLFSSON
Samtökin Röddin – baráttusamtök fyrir réttindum utangarðsfólks voru stofnuð á fjölmennum fundi í Iðnó.

Í stjórn eru sjö félagsmenn og þrír til vara. Stjórnarformaður var einróma kjörinn Alma Rut Lindudóttir. Auk hennar eru í stjórn þau Bjarni Tryggvason, Elísabet Kristjánsdóttir, Gunnhildur Bragadóttir, Hrafnhildur Jóhannesdóttir, Laufey Bára Einarsdóttir og Þorleifur Gunnlaugsson.

Samtökin eru landssamtök og tilgangur þeirra er, eins og nafnið bendir til, að berjast fyrir réttindum og vinna að málefnum utangarðsfólks.

Samtökin munu leitast við að koma að og hafa mótandi áhrif á allar aðgerðir stjórnvalda sem lúta að málefnum utangarðsfólks. Það verður m.a. gert með því að efla samtakamátt þeirra sem láta sig málið varða og vinna með öðrum félagasamtökum og hópum sem hafa svipuð markmið. Einnig skal sjá til þess að jafnræðisregla stjórnarskrárinnar verði virt og þeim mannréttindasáttmálum sem Ísland á aðild að sé framfylgt.

Efla skal gagnrýna og málefnalega umræðu um þjónustu við utangarðsfólk og stuðla að því að þeim sem lenda utangarðs verði búin skilyrði til að njóta hæfileika sinna.

Þeir sem vilja gerast stofnfélagar geta haft samband við Ölmu Rut Lindudóttur á netfanginu Almarut@internet.is.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×