Innlent

Bætt aðgengi á Hverfisgötunni

Freyr Bjarnason skrifar
 Miklar gatnaframkvæmdir hafa verið á Hverfisgötu að undanförnu.
Miklar gatnaframkvæmdir hafa verið á Hverfisgötu að undanförnu. FRÉTTABLAÐIÐ/Vilhelm
Búið er að malbika hjólastíga fyrir framan Bíó Paradís og verslunina Sjáðu á Hverfisgötu í Reykjavík.

Í gær var sandað og þjappað yfir snjóbræðslulagnir svo vegfarendur eigi enn greiðari aðgang að verslun og þjónustu á Hverfisgötu.

„Við erum rosalega ánægð með þetta og erum bjartsýn á framtíðina,“ segir Gylfi Björnsson, verslunarstjóri Sjáðu, spurður út í bætt aðgengi. „Þetta er búið að vera ógeðslega erfitt en vonandi fer þetta aðeins að liðkast til.“

Í tilkynningu frá Reykjavíkurborg segir að mikil áhersla sé lögð á að gera gönguleiðir og akstursleiðir eins greiðar og kostur er. Gangandi vegfarendur komist alla götuna og leiðir séu greiðar í bílastæðahús, bæði Traðarkot og Vitatorg.

Í dag verður opnað fyrir bílaumferð af Laugavegi niður Vatnsstíg og áfram niður Hverfisgötu. Einnig munu starfsmenn Reykjavíkurborgar hefjast handa við að setja upp jólaljósaskreytingar við Hverfisgötu.

Verslunarmenn hafa gagnrýnt borgina fyrir seinkun framkvæmda en til stóð að þeim lyki í nóvember.

Framkvæmdir eru styst á veg komnar á gatnamótum Hverfisgötu og Frakkastígs en þar var orðið við óskum um að hefja framkvæmdir síðar en áætlanir gerðu ráð fyrir. Endanlegum frágangi á gatnamótunum lýkur í janúar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×