Innlent

Áskilja sér bætur vegna Bakkavegar

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Vinnuvélar Eyjólfs óttast skemmdir á fasteign sinni og skert notagildi lóðar ef vegur frá Húsavíkurhöfn  til Bakka fer um lóðina.
Vinnuvélar Eyjólfs óttast skemmdir á fasteign sinni og skert notagildi lóðar ef vegur frá Húsavíkurhöfn til Bakka fer um lóðina. Fréttablaðið/Vilhelm
Fyrirtækið Vinnuvélar Eyjólfs á Húsavík áskilur sér bótarétt vegna legu vegar frá Húsavíkurhöfn að áformuðu iðnaðarsvæði á Bakka.

„Lýst er yfir áhyggjum af jarðgangagerð svo nærri lóð fyrirtækisins og áskilinn bótaréttur komi til skemmda á fasteigninni eða mögulegri skerðingu notkunarmöguleika eignarinnar vegna framkvæmdanna,“ segir í fundargerð skipulagsnefndar Norðurþings um sjónarmið Vinnuvéla Eyjólfs sem er eitt þeirra sem bárust áður en athugasemdafrestur vegna skipulags- og matslýsingar leið.

Skipulagsefndin tók undir athugasemd Vinnuvéla Eyjólfs en kvað hana ekki heyra undir skipulagsmál. „Sjónarmið um mögulegar skemmdir eða aðra verðmætarýrnun eigna verði skoðuð á framkvæmdastigi og við veitingu framkvæmdaleyfis,“ sagði nefndin.

Skipulagsstofnun sagði að rökstyðja þyrfti þörf fyrir jarðgöng á hluta fyrirhugaðs tengivegar. Skipulagsnefndin fól skipulagsfulltrúa sveitarfélagsins að svara þessari athugasemd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×