Innlent

Hundar með flugi í bootcamp-þjálfun

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Heiðrún Villa Ingudóttir hundaatferlisfræðingur leggur áherslu á að finna rétt prógramm fyrir hvern hund.
Heiðrún Villa Ingudóttir hundaatferlisfræðingur leggur áherslu á að finna rétt prógramm fyrir hvern hund.
Flestir hundanna sem koma í þjálfun til Heiðrúnar Villu Ingudóttur, hundaatferlisfræðings á Akureyri, koma með flugvélum frá öðrum landshlutum. Annríkið er svo mikið að fullbókað er í þjálfuninni fram í maí.

Heiðrún segir þjónustuna, sem hún kallar bootcamp-þjálfun, þá einu sinnar tegundar á landinu. „Þjálfunin hér er frábrugðin hlýðninámskeiðum sem haldin eru annars staðar. Ég sérhæfi mig í hegðunarvandamálum.“

Hegðunarvandamál hundanna stafa yfirleitt af almennri vanþekkingu á þörfum hundsins, að því er Heiðrún greinir frá. „Okkar samfélag er flókið fyrir marga hunda og áreitið mikið. Margir þeirra fá of mikið frelsi. Eigendurnir vilja vera góðir við hundana sína og leyfa þeim margt. Samtímis eru leiðbeiningarnar ekki nógu góðar og skýrar.

Það er misjafnt hvernig hundar höndla það að fá að gera það sem þeir vilja. Þeir geta vanist á slæma hegðun og eigendur verða ráðþrota.“

Að sögn Heiðrúnar er lögð áhersla á að hundar öðlist jafnvægi í þjálfuninni þannig að þeir verði yfirvegaðir. „Margir hundanna sem koma til mín eru stressaðir og eirðarlausir. Þeir fá reynslu af umgengni við börn og aðra hunda. Lögð er áhersla á að finna rétt prógramm fyrir hvern hund. Það sama á ekki við alla. Það þarf að spila þetta eftir hverjum og einum.“

Slakað á Mælt er með að hundarnir séu í bootcamp-þjálfuninni í 3 til 4 vikur.
Heiðrún, sem einnig fer heim til fólks til þess að taka hund þess í einkatíma, kveðst vera í daglegu sambandi við hundaþjálfara erlendis. „Við hjálpumst að við það að meta hvernig þjálfa eigi viðkomandi hund. Ég hef lært af sjö þjálfurum og er opin fyrir öllum aðferðum. Þannig fást fleiri lausnir og þetta hefur reynst mjög vel.“

Það þarf ekki að taka langan tíma að ráða bót á hegðunarvanda hunda þótt hann hafi kannski varað í langan tíma, að því er Heiðrún tekur fram. „Yfirleitt mæli ég með því að hundarnir séu hér í bootcamp-þjálfun í 3 til 4 vikur. Að því loknu fá eigendur sendan heim yfirvegaðan hund. Þeir fá jafnframt sent myndband og ítarlegar leiðbeiningar til að viðhalda árangrinum. Svo fylgir eilífðarstuðningur frá mér. Fólk er alveg í skýjunum yfir þessu.“

Heiðrún heldur úti heimasíðu þar sem nánar er greint frá þjónustunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×