Lífið

Listamenn eiga nóg af pottum og pönnum

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Hrafnhildur segir algeran niðurskurð á myndlistarsjóði, úr 45 milljónum í núll, reiðarslag.
Hrafnhildur segir algeran niðurskurð á myndlistarsjóði, úr 45 milljónum í núll, reiðarslag. Fréttablaðið/Daníel
„Ef svo ólíklega vill til að þessi mistök verða ekki leiðrétt í annarri umræðu um fjárlögin nú í byrjun desember, sé ég ekki að við höfum margt í stöðunni annað en að fara að ráði frænda okkar í Noregi. Þeir mótmæltu harðlega fyrir utan þinghúsið í Ósló í síðustu viku vegna niðurskurðar á þeim bænum. Ég geri ráð fyrir að listamenn landsins eigi enn nóg af pottum og pönnum, sjálf á ég eina undna pönnu sem yrði fín,“ segir Hrafnhildur Sigurðardóttir, formaður Sambands íslenskra myndlistarmanna.

Hrafnhildur bendir á að málflutningur forsætisráðherra um síðustu helgi sé ótrúlegur. Hann segi að það sé raunar ekki hægt að tala um að það sé verið að skera niður á sviðum þar sem stjórnvöld eru gagnrýnd fyrir að skera niður að undanförnu. Og hann nefnir sem dæmi rannsóknir, kvikmyndagerð og skapandi greinar.

„Hvernig hann fær það út er bara lygileg sögufölsun þar sem hann eignar sér hækkanir til skapandi greina frá síðustu stjórn,“ segir Hrafnhildur.

Mennta- og menningarráðuneyti hóf gerð myndlistarlaga árið 2007 og áttu þau að líta dagsins ljós árið 2008. Þá héldu sömu stjórnmálaflokkar um stjórnartaumana og nú.

Stjórn SÍM hafði sem hagsmunaaðili sent inn athugasemdir við lögin það ár, en vinna við lagasmíðina var sett á ís við fjármálahrunið það haust, enda óljóst hvort hægt væri að fjármagna myndlistarráð og sjóð því tengdan.

Grundvöllurinn var því brostinn fyrir starfseminni, að sögn Hrafnhildar. Þetta ferli hafi síðan verið tekið upp að nýju í ársbyrjun 2012 og lögin staðfest á Alþingi um sumarið.

„Það eru því vond skilaboð til myndlistarmanna í landinu, sem hafa beðið hvað lengst allra listgreina eftir slíkum sjóði, að þetta hafi eiginlega bara verið allt í plati.“

Alger niðurskurður á þessum sjóði sem nú blasir við, úr 45 milljónum króna í núll, er reiðarslag, segir Hrafnhildur, enda voru væntingar myndlistarmanna miklar með tilkomu nýju laganna. Hér var loks kominn sjóður sem gæti aukið líkur listamanna á að fá styrki frá útlöndum, styrki sem krefjast mótframlags, bætir hún við.

Stjórn SÍM hefur í samvinnu við Listfræðafélag Íslands og sem aðildarfélag Bandalags íslenskra listamanna sent bæði fjárlaganefnd Alþingis og mennta- og menningarráðherra bréf þar sem sjónarmið þeirra eru skýrð og bent á þessi mistök sem orðið hafa við fjárlagagerðina. Óskað hefur verið eftir fundi til að fylgja þessum erindum eftir. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.