Lífið

Gus Gus fékk stjörnumóttökur í Rússlandi

Ugla Egilsdóttir skrifar
Þyri Huld fékk ásamt öðrum dönsurum Íslenska dansflokksins Grímuverðlaunin árið 2012 í flokknum Danshöfundur ársins.
Þyri Huld fékk ásamt öðrum dönsurum Íslenska dansflokksins Grímuverðlaunin árið 2012 í flokknum Danshöfundur ársins. Mynd/Einkasafn
Þyri Huld Árnadóttir dansari ferðaðist til Síberíu og Moskvu með hljómsveitinni Gus Gus, meðal annars til bæjarins Norilsk, sem aðkomufólk fær alla jafna ekki leyfi til að sækja heim. Þar og víðar héldu Gus Gus og Íslenski dansflokkurinn í sameiningu tónlistar- og danssýninguna Á vit.

Ferðin til Norilsk var listamönnunum sérstaklega eftirminnileg. „Við þurftum að fá sérstakt leyfi til að fá að vera þarna,“ segir Þyri Huld. Bærinn er meðal annars þekktur fyrir að höfuðstöðvar Norillag-gúlagsins voru við bæjarmörkin. Þar fer fram stór hluti af allri nikkelframleiðslu heimsins og af þeim sökum er borgin ein af tíu menguðustu borgum veraldar.

„Það er ekki eitt grænt grasstrá í margra kílómetra radíus út frá borginni. Hins vegar voru herbergin full af plöntum sem sátu á stólum inni á hótelinu okkar.“ Þyri segir sýninguna hafa fengið afar góðar viðtökur. „Gus Gus er mjög stórt nafn í Rússlandi. Þau eru algjörar stjörnur.“

Eftir þessa sérstæðu reynslu hópsins í Síberíu tók við meiri íburður í höfuðborg Rússlands.

„Þar vorum við að sýna á einkaklúbbi í einkapartíi fyrir flotta fólkið í Moskvu sem var algjör andstæða við það sem við áttum að venjast í Norilsk. Það var eins og að koma inn í annan heim, svakalega góður matur og allt gert fyrir okkur.“

Þyri Huld segir að í Á vit sé listformum blandað saman í meira mæli en oft er gert. Sýningin sé algjör blanda af tónleikum og danssýningu og erfitt sé að greina muninn þarna á milli.

Samstarfsverkefni Á vit er samstarfsverkefni Íslenska dansflokksins, Gus Gus, Hörpu og Listahátíðar í Reykjavík.Mynd/Einkasafn
„Venjulega í dansinum er tónlistin fyrst búin til og við dönsum svo eftir henni en þarna má segja að söngvararnir séu hluti af dansverkinu.“

Þyri ber hljómsveitinni afar vel söguna og segir samstarfið hafa verið ánægjulegt.

„Það var ótrúlega gaman að fá þetta tækifæri til að gera verk með Gus Gus, enda eru þau öll frábærir listamenn.“

Hópurinn frumsýndi verkið á Listahátíð í Reykjavík 2012 og hefur einnig farið til Danmerkur með sýninguna. Fyrir þau sem misstu af sýningunni á Listahátíð bendir Þyri á að ekki sé ástæða til að örvænta því Á vit verði sýnt aftur á Íslandi á næsta ári.

Um þessar mundir er Þyri á ferðalagi um Belgíu, Frakkland og Þýskaland að sýna verk sem heitir H, an Incident og er eftir belgískan höfund sem heitir Kris Verdonck. Sýningin er unnin í samstarfi við Shalala. Í janúar frumsýnir hún síðan nýtt íslenskt dansverk sem heitir Óraunveruleikir í Kassanum í Þjóðleikhúsinu ásamt Urði Hákonardóttur og Valgerði Rúnarsdóttur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.