Lífið

Grant í fyrsta sæti í Bretlandi

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Pale Green Ghosts-platan hefur vakið lukku.
Pale Green Ghosts-platan hefur vakið lukku.
Nýjasta plata Johns Grant, Pale Green Ghosts, hefur verið valin besta plata ársins að mati hinnar virtu Rough Trade-plötuverslunar í Bretlandi. Rough Trade-plötuverslunin er sjálfstæð og er á tveimur stöðum í London en fyrsta verslunin var opnuð árið 1976. Á næstunni verður þó opnuð Rough Trade-verslun í New York.

Rough Trade Records-útgáufyrirtækið, sem gaf meðal annars út hljómsveitir á borð við The Smiths og The Libertines, og plötubúðin voru á sínum tíma undir sama hatti en urðu viðskila sökum breyttra aðstæðna, líkt og með komu stafrænna forma.

Á listanum er fjöldi þekktra nafna en í öðru sæti listans sitja Íslandsvinirnir í Savage með plötuna Silence Yourself en sveitin kom fram á Iceland Airwaves-hátíðinni í ár.

Platan, sem er önnur sólóplata Grants, er nánast alfarið unnin með íslenskum tónlistarmönnum. Á meðal þeirra Íslendinga sem koma fram á plötunni eru Birgir Þórarinsson, Óskar Guðjónsson saxófónleikari, Guðmundur Pétursson, Smári Tarfur og Pétur Hallgrímsson gítarleikarar, Jakob Smári Magnússon bassaleikari og Arnar Geir Ómarsson trommuleikari, ásamt mörgum fleirum. Einnig syngur engin önnur en Sinead O‘Connor bakraddir.

Grant er á og hefur verið á tónleikaferðalagi um allan heim á árinu að kynna plötuna, ásamt hljómsveit sinni sem skipuð er íslenskum hljóðfæraleikurum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.