Innlent

Engin endurnýjun á fimm árum hjá sérfræðilæknum

Svavar Hávarðsson skrifar
Starfsaðstæður og starfsandi er sagður skipta miklu rétt eins laun þegar búseta er ákveðin.
Starfsaðstæður og starfsandi er sagður skipta miklu rétt eins laun þegar búseta er ákveðin. fréttablaðið/gva
Meðalaldur sjálfstætt starfandi sérfræðilækna hefur hækkað um fimm ár á jafnmörgum árum. Þetta þýðir á mannamáli að í þessum hópi lækna hefur engin endurnýjun orðið og staðan er að verða grafalvarleg, segir Kristján Guðmundsson, háls-, nef- og eyrnalæknir. Sömu sögu er að segja um heilsugæslu- og sjúkrahúslækna, að kalla má.

Kristján hefur skoðað aldurssamsetningu sjálfstætt starfandi sérfræðilækna árin 2007 til 2012 en niðurstöður sínar birti hann í nýjasta tölublaði Læknablaðsins.

Kristján sýnir fram á að í lok síðasta árs var þriðjungur læknisverka unninn af læknum sem eru 60 ára og eldri. Fimm árum fyrr var hlutfallið aðeins 19%. Þegar hin hliðin á peningnum er skoðuð kemur það sama í ljós. Árið 2007 voru 42 prósent starfseminnar á hendi lækna 49 ára og yngri en þetta hlutfall er dottið niður í 25 prósent í lok tímabilsins. Innan við prósent læknisverka er nú unnið af sérfræðilæknum innan við fertugt en var á sjötta prósent árið 2007.

Þessi þróun er reyndar fjarri því að vera bundin við hóp sjálfstætt starfandi sérfræðinga. Gögn Læknafélags Íslands sýna að meðalaldur heilsugæslulækna hefur á sama tímabili farið úr 50 árum í 54 ár og sjúkrahúslækna úr 49 í 52 ár.

„Þessi þróun er grafalvarleg, hvernig sem á hana er litið,“ segir Kristján. „Hvað þetta þýðir nákvæmlega er mjög erfitt að spá fyrir um. En ég er ekki sannfærður um að launin segi hér alla söguna. Ég er ekki viss um að læknar komi heim fyrir eitthvað betri laun. Ég efast um að það dugi.“

Kristján nefnir að ungir læknar tilheyri kynslóð sem hugsi á öðrum nótum en þeir sem eru að ljúka starfsævi sinni. Laun séu eitt, en hafa verði í huga að umgjörðin, bæði í samfélaginu og á vinnustaðnum, skipti ekki minna máli. „Það hefur verið neikvæðni í kringum spítalana, menn þekkja líka að tækjakostur þeirra er ófullnægjandi. Þetta eru atriði sem skipta miklu máli,“ segir Kristján.

Um 340 læknar sinna sérfræðilækningum hérlendis, en sá fjöldi hefur verið nær óbreyttur um árabil. Af þeim vinna 200 læknar hlutastörf á heilbrigðisstofnunum. Læknar sem starfa á Íslandi eru um 1.200 talsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×