Innlent

Ný bylting er rétt að hefjast

Þorgils Jónsson skrifar
Liv Bergþórsdóttir
Liv Bergþórsdóttir
Þrátt fyrir að fjarskiptamarkaðurinn hér á landi hafi breyst gríðarlega síðustu ár er stóra stökkið rétt að byrja með uppgangi 4G-farnetsins.

Í tölfræðiúttekt Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) á íslenska fjarskiptamarkaðnum kemur meðal annars fram að hefðbundnum fastlínutengingum hefur fækkað um 24.000 frá árinu 2008 og fækkar enn. Til dæmis eru fastlínur á heimilum nú rúmlega 92.000 talsins samanborið við tæplega 99.000 á fyrri hluta ársins 2011, en besta dæmið er sennilega sú staðreynd að á fyrri helmingi þessa árs töluðu Íslendingar í um 4,3 milljónir klukkustunda í símann miðað við um fimm milljónir klukkustunda fyrri hluta 2011.

Á sama tíma hefur áskriftum í farsímakerfinu fjölgað um 30.000 og eru þær nú tæplega 406.000.

Þrátt fyrir það hefur símtölum úr farsímakerfinu ekki fjölgað, nema síður sé, og það sama á við um lengd símtala sem er eilítið minni en hún var á fyrri hluta ársins 2011, eða 3,3 milljónir klukkustunda.

Þar á móti kemur stærsta byltingin en á síðustu tveimur árum hafa bæst um 60.000 áskriftir á breiðbandstengingum í farsíma og gagnaumferð á farsímanetinu hefur tvöfaldast. Innifalin í þeirri tölu eru svokallaðir 3G-pungar og nettengdar spjaldtölvur, en þegar litið er til gagnaflutninga í farsíma einna og sér hefur gagnamagnið meira en sjöfaldast og nam um 256 terabætum á fyrri helmingi þessa árs.





Stærsta stökkið þegar litið er til símafélaga er hjá Nova, en í skýrslu PFS kemur fram að magn gagnaflutninga á farsímakerfi Nova fjórfaldaðist á fyrri helmingi ársins miðað við sama tíma í fyrra og er nú helmingurinn af markaðnum. 

Liv Bergþórsdóttir, framkvæmdastjóri Nova, segir að þessar tölur sýni að Nova sé að festa sig í sessi sem annað stærsta farsímafyrirtæki landsins.

„Þetta sýnir einna helst hvað 4G-þjónustan hjá okkur hefur fengið góðar móttökur. Með slíkri þjónustu er hraðinn og upplifunin af netnotkun bara allt önnur.“

Liv segir að 3G-væðingin sem hófst árið 2007 hafi markað ákveðin tímamót.

„En nú er ný bylting að hefjast,“ segir hún og vísar í spá frá GSMA, alþjóðlegum hagsmunasamtökum farsímafyrirtækja, þar sem fram kemur að á næstu fimm árum muni gagnaumferð á alþjóðavísu sjöfaldast frá því sem nú er, ekki síst vegna þeirra möguleika sem 4G gefur til þess að njóta margmiðlunarefnis á farnetum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×