„Við streymum tónleikunum á netinu, á vefsíðunni tvborg.com,“ segir Jón Reginbald Ívarsson sem er eigandi síðunnar, ásamt Ómari Agli Ragnarssyni. Borg er í raun tónleikaröð og hafa sextán tónleikar farið fram undanfarið í miðbæ Reykjavíkur. „Við erum nú í fyrsta sinn að fara út á land. Við verðum á Rúben á Grundarfirði í kvöld,“ segir Jón.
Á tónleikunum í kvöld koma fram hljómsveitirnar Rix, Housekell og No Class. „Tónleikarnir eru haldnir í tilefni kvikmyndahátíðarinnar Northern Wave Film Festival sem fram fer í bænum um helgina.
Ásamt því að vera tónleikaröð er Borg líka gagnasafn fyrir myndbönd af tónlistarmönnum á sviði. „Við hýsum fjölda myndbanda af ýmsum listamönnum sem koma fram.“
Áður hafa sveitir á borð við Retro Stefson, Hermigervil og Gluteus Maximus komið fram á tónleikum á vegum Borgar.
Tónleikarnir hefjast þegar dagskrá kvikmyndahátíðarinnar lýkur á miðnætti en þeir fara fram á skemmtistaðnum Rúben.
