Skoðun

Veraldlegt samfélag

Bjarni Jónsson skrifar
Þegar ég er spurður að því að hvers konar samfélagi ég vil lifa í þá svara ég oftast á þann veg að ég vilji búa í veraldlegu, lýðræðislegu samfélagi sem byggir gildi sín á mannréttindum. Búum við í slíku samfélagi? Ríkir hér fullkomið trúfrelsi? Er ofangreind skilgreining kannski útópía? Hvað þýðir þessi skilgreining?

Fyrst og fremst er þarna um að ræða yfirlýsingu um að hið opinbera eigi að starfa eftir veraldlegum leikreglum án sérstakra trúarlegra merkimiða. Hið opinbera er þingið, dómskerfið, skólar, heilbrigðiskerfið og slíkt. Trúfrelsi, sannfæringar- og tjáningarfrelsi eru mikilvægir þættir slíks samfélags og þar með ættu engin tengsl eða afskipti ríkisins að vera af trúar- og lífsskoðunum fólks ólíkt því sem nú er. Opinberar stofnanir eiga ekki að standa fyrir áróðri lífsskoðunarfélaga hvort sem þau eru trúarleg eða veraldleg.

Hvernig er staðan á Íslandi miðað við ofangreinda skilgreiningu? Margt jákvætt hefur gerst en því miður er enn töluvert í land. Einfaldast er að benda á að í stjórnarskránni er ákvæði um trúfrelsi en síðan er kveðið á um ríkiskirkju sem stangast algjörlega á.

Enn er víða sá háttur á að prestar umgangast leik- og grunnskóla sem um væri að ræða vettvang fyrir barnastarf kirkjunnar en ekki opinbera skóla. Einnig er það sérkennilegt að þing samfélags sem telur sig veraldlegt skuli hefjast með messu og trúarleiðtogi gangi með forseta og þingmönnum á milli kirkju og þings líkt og um trúræðisríki væri að ræða en Siðmennt hefur krafist breytinga þar á og telur að slíkt samrýmist ekki fjölbreytilegu samfélagi sem ríkir hér á landi.

Helsti talsmaður veraldlegs samfélags á undanförnum tveimur áratugum hefur verið Siðmennt. Félagið hefur farið fremst í gagnrýni á nánast óheftan aðgang presta að börnum í skólum, verið í forsvari fyrir auknum mannréttindum og hvatt til breytinga á aðalnámsskrá skóla og lagt til að öflug kennsla fari fram um heimspeki, lífsskoðanir og trúarbrögð. Kennsluefnið verði óhlutdrægt og kennt á fræðilegum forsendum en ekki hvað sé „okkar“ og hvað sé „annarra“.

Óhætt er að segja að árangur hafi orðið og margt af því sem félagið hefur haldið fram hefur náðst m.a. fyrir atbeina félagsins. Reykjavíkurborg setti sér reglur um samstarf skóla og trúar- og lífsskoðunarhópa þar sem m.a. er óheimilt að reka trúboð í skólum borgarinnar og börn og foreldrar þeirra verði ekki sett í þá aðstöðu að þurfa stöðugt að gefa upp lífsskoðanir sínar. Hafnarfjarðarbær hefur einnig innleitt sambærilegar reglur.

Í framhaldinu hvatti menntamálaráðuneytið önnur sveitarfélög til að fara sömu leið. Ný námsskrá inniheldur áherslu á trúarbragðafræði í stað kristinfræði auk þess sem gagnrýnin hugsun, siðfræði og heimspeki hafa fengið aukna áherslu.

Það er því mikilvægt að þeir sem styðja viðleitni Siðmenntar til þess að hér ríki veraldlegt samfélag sem byggir gildi sín á mannréttindum styðji félagið með því að skrá sig í félagið hjá Þjóðskrá. Þannig er tryggt að unnið verði ötullega að þeim markmiðum.




Skoðun

Sjá meira


×