Innlent

Fuglar flæktir í girni á Þingvöllum

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Fótbrotin önd og rammflæktur fýll eru meðal fórnarlamba girnis við bakka Þingvallavatns.
Fótbrotin önd og rammflæktur fýll eru meðal fórnarlamba girnis við bakka Þingvallavatns. Myndir/Davíð Þór Óðinsson og Sævar Þór Halldórsson
Borið hefur á því að fuglar í þjóðgarðinum á Þingvöllum hafa lent í ógöngum með því að flækjast í girni. Á sunnudaginn hafði fjölskylda samband við landvörð og tjáði honum að hún hefði fundið fugl fastan í girni við Vatnskot.

„Faðirinn hafði komið fuglinum til aðstoðar og losað hann úr mestu flækjunni áður en landvörður kom á staðinn. Utan um fót fuglsins, sem er toppandarkolla, var þéttvafið girni með veiðiflugu fastri á endanum. Kom síðar í ljós að öndin var fótbrotin,“ segir í frétt frá þjóðgarðinum.

Þá kemur fram að fyrr í sumar komu landverðir að fýl sem hafði gleypt agn sem fast var í girni. „Við það að reyna að leysa sig hafði hann flækt girnið utan um sig allan,“ segir í frétt þjóðgarðsins sem biður fyrir þau skilaboð til veiðimanna að taka alltaf girni með sér og henda því í ruslatunnur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×