Innlent

Sögð hafa svikið fé af Háskólanum

Stígur Helgason skrifar
Þar sem konan er ákærð fyrir brot í opinberu starfi getur hún átt von á að refsing hennar verði fimmtíu prósentum þyngri en ella.
Þar sem konan er ákærð fyrir brot í opinberu starfi getur hún átt von á að refsing hennar verði fimmtíu prósentum þyngri en ella.
Tæplega sextug kona hefur verið ákærð fyrir umboðssvik og fjárdrátt í starfi sínu sem skrifstofustjóri Jarðvísindastofnunar hjá Raunvísindastofnun Háskóla Íslands. Fjögur ár eru síðan málið var kært til lögreglu.

Samkvæmt ákærunni hafði konan, sem er fædd árið 1955, kreditkort til umráða frá stofnuninni og greiddi með því vörur og þjónustu í eigin þágu í 138 skipti á tímabilinu 13. júní 2008 til 19. september 2009, samtals fyrir 789 þúsund krónur. Er þetta talið varða við ákvæði um umboðssvik, en til vara fjárdrátt í opinberu starfi.

Í öðrum lið er konan ákærð fyrir að draga sér samtals 645 þúsund krónur með því að millifæra fé af reikningi stofnunarinnar inn á eigin reikning.

Málið uppgötvaðist við reglubundið eftirlit Ríkisendurskoðunar á bókhaldi háskólans. Konunni var í kjölfarið sagt upp störfum.

Þar sem hún er ákærð fyrir brot í opinberu starfi getur hún átt von á að refsing hennar verði fimmtíu prósentum þyngri en ella.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×