Skoðun

Börn svelta í stríðshrjáðu landi

Erna Reynisdóttir skrifar
Átökin í Sýrlandi hafa nú staðið yfir í meira en tvö og hálft ár þar sem börn hafa orðið vitni að ólýsanlegum atburðum. Þau hafa séð nána fjölskyldumeðlimi og vini líflátna og sjálf verið pyntuð og myrt. Fjölskyldur sem hafa flúið land búa við bágbornar aðstæður í flóttamannabúðum í Líbanon, Jórdaníu og Írak. Ofan á hríðversnandi stríðsástand bætist nú við hungursneyð. Sameinuðu þjóðirnar áætla að um fjórar milljónir Sýrlendinga, þar af tvær milljónir barna, búi við hungur og ljóst er að börn deyja daglega úr næringarskorti eða skorti á heilbrigðisþjónustu.

Ákall á hjálp

Í helstu borgum Sýrlands er ástandið skelfilegt. Ofbeldi á götum úti og átök á milli stríðandi fylkinga valda því að heilu fjölskyldurnar eru lokaðar inni og búa við bráðan matarskort. Matarbirgðir í landinu eru á þrotum, ræktunarsvæði eyðilögð og aðgangur að drykkjarvatni af skornum skammti.

Í nýútkominni skýrslu alþjóðasamtaka Barnaheilla – Save the Children, Hungursneyð í stríðshrjáðu landi, lýsa sýrlenskar mæður, feður, afar, ömmur og börnin sjálf því ástandi sem þau búa við. Skýrslan er ákall á hjálp. Hjálp frá alþjóðasamfélaginu, hjálp frá mér og þér. Skýrsluna er að finna í heild sinni á vef Barnaheilla – Save the Children á Íslandi, barnaheill.is.

Neyðaraðstoð

Save the Children starfa bæði í flóttamannabúðum og innan landamæra Sýrlands við að veita neyðaraðstoð og hafa samtökin sent út neyðarkall til almennings um stuðning til handa sýrlenskum börnum. Stríðið í Sýrlandi er ein versta hörmung sem dynur yfir börn í heiminum í dag.

Neyðin er gífurleg og fjöldi barna mun deyja á næstu vikum og mánuðum ef ekkert er að gert. Látum okkur hag sýrlenskra barna skipta og leggjum okkar af mörkum til að bjarga börnum í neyð.

Ég vil hvetja alla þá sem eru aflögufærir að hringja í söfnunarsímana 904 1900 (kr. 1.900) eða 904 2900 (kr. 2.900) og styðja þannig við hjálparstarf í Sýrlandi. Einnig er hægt að styrkja með frjálsum framlögum á reikning samtakanna 336-26-58, kt. 521089-1059.




Skoðun

Sjá meira


×