Íslenski boltinn

Hvaða lið fara upp í dag?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ólafur Þórðarson fór upp með Fylki fyrir 14 árum.
Ólafur Þórðarson fór upp með Fylki fyrir 14 árum. Mynd/Arnþór
Lokaumferð 1. deildar karla í fótbolta fer fram í dag og hefjast allir leikirnir klukkan 14.00. Það er gríðarlega mikil spenna í loftinu enda toppbaráttan eins jöfn og hún getur verið. Það munar bara einu stigi á liðunum í fyrsta (Fjölni) til fjórða sæti (Víkingi, Grindavík og Haukum). BÍ/Bolungarvík er síðan aðeins tveimur stigum á eftir og því eiga enn fimm félög möguleika á því að tryggja sér sæti í Pepsi-deildinni 2014.

Fjölnir og Víkingur eru einu liðin sem tryggja sér sæti í Pepsi-deildinni með sigri í dag. Fjölnir er með eins stigs forskot í toppsætinu og Víkingar hafa langbestu markatöluna af þeim liðum (Víkingar, Grindavík og Haukar) sem eru með 39 stig í 2. til 4. sæti.

Víkingar og Haukar spila við lið við botninn sem eru annaðhvort fallin (Völsungur - Haukar) eða búin að bjarga sér (Þróttur R. - Víkingur R.). Það þarf mikið að falla með BÍ/Bolungarvík til að þeir komist upp en Djúpmenn mæta Tindastól á útivelli og þurfa að treysta á það að lið tapi stigum.

Grindavík er eina liðið af þessum fimm sem getur tryggt sig upp sem er á heimavelli en Grindvíkingar fá KA-menn í heimsókn. Topplið Fjölnis heimsækir Leikni í Breiðholtið.

Sameiginlegt lið BÍ og Bolungarvíkur hefur aldrei spilað í efstu deild en hin fjögur liðin hafa öll spilað í Pepsi-deildinni á síðustu árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×