Innlent

Fimm mínútur á Esjuna með svifferju

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Gert er ráð fyrir að rafmagnskláfurinn leggi upp frá bílastæðinu við Mógilsá og hafi viðkomu í 500 metra hæð fyrir lokaáfangann á Esjubrúnum 900 metrum yfir sjávarmáli.
Gert er ráð fyrir að rafmagnskláfurinn leggi upp frá bílastæðinu við Mógilsá og hafi viðkomu í 500 metra hæð fyrir lokaáfangann á Esjubrúnum 900 metrum yfir sjávarmáli. Mynd/Verkfræðistofa Jóhanns Indriðasonar
„Segja má að nú hafi skapast aðstæður til að laða að þann fjölda farþega sem þarf til að standa undir stofnkostnaði við kláfferjuna,“ segir í erindi til borgaryfirvalda þar sem kynnt er hugmynd að farþegaferju upp á Esjuna.

Samkvæmt áætlun Verkfræðistofu Jóhanns Indriðasonar, sem á verkefnið, er áætlað að kláfurinn nái í 900 metra hæð í tveimur áföngum. Lagt yrði upp á sama stað og göngufólk hefur nú sem upphafspunkt.

„Kláfurinn er síðan sveigður til austurs þannig að hann er á löngum köflum í hvarfi frá gönguleiðinni sem flestir fara á Esjuna,“ segir í umsókn þar sem sótt er um þrjár lóðir fyrir kláfinn, eina á jafnsléttu, aðra í 500 metra hæð og þá þriðju við brún fjallsins.

Áætlað er að ferjan, sem knýja á rafmagni, flytji 100 til 150 þúsund manns á ári. „Gestir ferjunnar verða Íslendingar í margvíslegum erindagjörðum en auk þess erlendir ferðamann sem vilja koma og skoða þessa perlu í nágrenni Reykjavíkur og njóta útsýnis og víðáttu. Á Esjubrún er gert ráð fyrir aðstöðu til móttöku og þjónustu við ferðamenn, svo sem veitingastað í einhverri mynd,“ segir í lóðaumsókninni.

Leiðin upp
Fram kemur að áhersla sé á að þróa hugmyndina í nánu samráði við Reykjavíkurborg og aðra hagsmunaaðila. Gera þurfi endanlegar áætlanir um fjármögnun og rekstur auk rannsókna á umhverfinu.

„Því næst verður aflað fjármagns og framkvæmdum hrint af stað. Óformlegur áhugi fjárfesta liggur fyrir,“ segir í lóðaumsókninni. Reiknað er með að framkvæmdir hefjist 2015 og að Esjuferjan verði gangsett 2016 eða 2017.

Í umsögn sem skipulagsráð borgarinnar hefur samþykkt er tekið undir að ferja upp á Esjuna myndi bæta aðgengi til muna. Ef tekið væri jákvætt í lóðaumsóknina þyrfti að breyta skipulagi svæðisins og athuga hvort þörf væri á umhverfismati. 

„Ekki er þó tekin afstaða til þess hér,“ segir skipulagsráð, sem bendir jafnframt á að semja þyrfti við ríkið um afnotarétt að landinu.

Arnþór Þórðarson hjá Verkfræðistofu Jóhanns Indriðasonar segir að ferjan muni geta tekið 25 til 30 manns í hvorum tveggja klefa sinna. Ferðin upp fjallið taki fjórar til fimm mínútur. Gróflega áætlaður kostnaður við verkefnið sé þrír milljarðar króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×