Skoðun

Umferðarsáttmáli – kurteisisreglur í umferðinni

Kristján Ólafur Guðnason skrifar
Umferðarslysum hér á landi hefur fækkað um 32% frá árinu 2008 til 2012. Banaslysum fækkaði stórlega á sama tíma. Um árangur er að ræða sem fyrst og fremst má rekja til bættrar umferðarmenningar hér á landi; betri, öruggari og ábyrgari aksturs ökumanna.

Slysum hefur þó fjölgað lítillega það sem af er þessu ári miðað við árið 2012. Sú þróun er óásættanleg enda snýr hún að hegðun okkar sem vegfarenda í umferð. Það er í okkar höndum að fækka slysum. Mikilvægt er því að átta sig á þessari þróun og bregðast við í tíma.

Tölur lögreglu sýna að eitt umferðarslys verður að meðaltali á dag á höfuðborgarsvæðinu. Fæst hafa þau verið þrjú á einni viku það sem af er þessu ári. Það sýnir að slysalausir dagar eru mögulegir. Spurningin er því ekki hvort við getum fjölgað þeim dögum og fækkað slysum, heldur hvernig.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og Samgöngustofa munu á næstu dögum kynna Umferðarsáttmála vegfarenda, kurteisisreglur sem ætlað er að auka sameiginlegan skilning á því hvernig við viljum haga okkur í umferð, hvernig við sýnum hvert öðru tillitssemi og stuðlum þannig að auknu öryggi.

Sáttmálinn hefur verið í vinnslu síðustu mánuði og fjórtán einstaklingar, lærðir og leikir er buðu sig fram til verkefnisins og hafa brennandi áhuga á umferðarmálum og umferðaröryggi, borið þar hitann og þungann.

Heimasíðu og fésbókarsíðu hefur jafnframt verið haldið úti með það að markmiði að fá viðhorf sem flestra til þess hvernig umferð okkar og umferðarmenning á að vera, hvað við gerum vel og hvað við getum gert betur. Afraksturinn er Umferðarsáttmáli allra vegfarenda.

Sáttmálinn verður formlega kynntur 18. september nk. í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í Reykjavík og eru allir þeir sem áhuga hafa á umferðarmálum og umferðaröryggi hvattir til að mæta og kynna sér hann frá fyrstu hendi.




Skoðun

Sjá meira


×