Lífið

Margrét Erla: Ofsalega þakklát þessu fólki fyrir stuðninginn

Sara McMahon skrifar
Margrét Erla Maack og félagar hennar í Sirkus Íslands eru þakklát fyrir stuðninginn.
Margrét Erla Maack og félagar hennar í Sirkus Íslands eru þakklát fyrir stuðninginn. Fréttablaðið/arnþór Birkisson
„Við erum öll í smá spennufalli og vitum ekkert hvað við eigum að tala um við vini okkar núna þegar söfnunin er yfirstaðin,“ segir fjölmiðlakonan Margrét Erla Maack. Hún og félagar hennar í Sirkus Íslands fengu þá hugmynd í sumar að safna fyrir sirkustjaldi og hófu því landssöfnun á vefnum Karolinafund. Söfnuninni lauk á miðnætti mánudags og hafði hópnum þá tekist að safna sex og hálfri milljónum króna og því verður draumurinn um sirkustjaldið brátt að veruleika.

Margrét Erla segir hópinn hafa safnast saman heima hjá sirkusstjóra Sirkus Íslands, Lee Nelson, til að fylgjast með lokaspretti söfnunarinnar. „Við vorum öll í sínu horni þangað til við áttuðum okkur á því að þetta gæti í raun tekist og þá söfnuðumst við heima hjá Lee. Dóttir hans var sofandi þannig að fagnaðarlætin voru mjög lágvær til að vekja hana ekki.“

Um sjöhundruð manns lögðu hópnum lið með því að kaupa miða á sýningar Sirkus Íslands næsta sumar. „Þetta var að lang mestu leyti einstaklingar, sumir keyptu einn miða og aðrir nokkra. Við erum ofsalega þakklát þessu fólki fyrir stuðninginn,“ segir Margrét Erla.

Aðspurð segir hún að nú hefjist leitin að hinu fullkomna sirkustjaldi. „Það er ýmislegt sem þarf að huga að: eigum við að kaupa 200 manna tjald eða tjald sem rúmar 300 manns. Eigum við að kaupa tilbúið tjald eða láta búa til tjald sérstaklega fyrir okkur. Þetta eru hlutir sem við þurfum að leggjast yfir núna,“ segir hún að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.