Innlent

Bleikjueldi á Sogni

Valur Grettisson skrifar
Fangar sjá um bleikjueldi á Sogni.
Fangar sjá um bleikjueldi á Sogni. Fréttablaðið/gva
„Við byrjuðum á þessu í fyrrasumar,“ segir Margrét Frímannsdóttir, forstöðumaður á Litla-Hrauni og Sogni, en í síðarnefnda fangelsinu er nú stundað bleikjueldi.

Síðasta uppskera var nokkuð góð að sögn Margrétar, eða um 400 kíló. Fiskurinn var nýttur í mat handa föngum á Sogni og Litla-Hrauni.

„Við keyptum bara seiði og hófum bleikjueldi í nærliggjandi læk,“ segir Margrét um tilurð verkefnisins en fangar hafa alfarið umsjón með eldinu. Þegar fangar sem hafa umsjón með verkefninu eru látnir lausir taka aðrir við keflinu.

„Við erum með nýja bleikju, og svo er hún grafin líka,“ segir Margrét, en verkefnið er vel heppnað að hennar mati.

Þá er stundaður fjölbreyttari búskapur í fangelsinu, meðal annars eru íslenskar hænur á Sogni.

„Og ef við værum með útihús, værum við líka með sauðfé,“ bætir Margrét við. Þess má geta að 350 fjár eru á Kvíabryggju.

Margrét Frímannsdóttir.
Hún segir það kosta mikla vinnu að finna störf handa föngum. „Ég er alltaf að hringja og skoða hvað við getum gert,“ segir Margrét.

Eins og greint var frá í Fréttablaðinu í gær snarminnkuðu atvinnutækifærin fyrir fanga eftir hrun og er enga vinnu að hafa fyrir fanga á höfuðborgarsvæðinu aðra en nám.

Margrét hefur þó verið iðin við að skapa tækifæri fyrir fanga á Suðurlandi. Meðal annars gerði hún samning við Vegagerðina um vinnu. „Ég var nú bara að keyra austur þegar ég sá gular stikur liggja úti í vegkanti,“ segir Margrét, sem hafði samband við Vegagerðina og kom á samningum við fyrirtækið í kjölfarið.

Og verkefnin eru fjölbreyttari. Átta fangar starfa við endurvinnslu í samstarfi við Íslenska gámafélagið. Þeir tína endurvinnanlega málma úr raftækjum. Svo starfa fangar einnig við að gera við og skanna inn gamlar myndir fyrir Landgræðslu ríkisins.

„En stærstur hluti hjá mér stundar nám,“ segir Margrét stolt, en 51 fangi er í skóla. Alls eru 45 fangar í vinnu, en þess má geta að sumir eru bæði í vinnu og skóla. Alls eru 96 fangar á Litla-Hrauni og Sogni.

Í júní síðastliðnum stunduðu sex háskólanám við þrjá háskóla hérlendis og var einn sexmenninganna auk þess skráður í einn áfanga við FSu á Litla-Hrauni. Þess má geta að nemendur fá greitt fyrir að sækja skóla, en verða þó að sýna fram á árangur og verkefnaskil ætli þeir að fá útborgað að sögn Margrétar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×