Innlent

Útleiga heldur gæsluþyrlum á lofti

Heimir Már Pétursson skrifar
Þór, flaggskip Landhelgisgæslunnar, hefur meira og minna verið bundið við bryggju í sumar. Einungis hefur tekist að halda einu varðskipi úti að jafnaði á þessu ári.
Þór, flaggskip Landhelgisgæslunnar, hefur meira og minna verið bundið við bryggju í sumar. Einungis hefur tekist að halda einu varðskipi úti að jafnaði á þessu ári. Mynd/Friðrik Þór
Útköllum hjá þyrlum Landhelgisgæslunnar fjölgar ört með auknum straumi ferðamanna. Leiga á flugvél og skipum Gæslunnar stendur undir starfsemi þyrlusveitar. Flaggskipið Þór er oftar en ekki bundið við bryggju.

Útköllum björgunarþyrlna Landhelgisgæslunnar hefur fjölgað um 28 prósent fyrstu átta mánuði þessa árs miðað við sama tímabil í fyrra og eru 46 prósentum fleiri en að meðaltali síðustu tíu ár. Fjölgun útkalla í sumar er jafnvel enn meiri.

Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar, segir að rekja megi fjölgun útkalla til aukinnar ferðamennsku og fjölgunar ferðamanna til landsins.

SIF vinnur fyrir LÍF

Landhelgisgæslunni hefur tekist með herkjum og útsjónarsemi að halda úti flugi þriggja björgunarþyrlna undanfarin ár. Forstjóri Landhelgisgæslunnar segir að þetta hafi tekist með því að leigja TF-SIF flugvél Gæslunnar til verkefna í útlöndum sem og eitt varðskipanna. Tekjur af þessari leigu hafi staðið undir kostnaði við að endurnýja TF-LÍF, sem er eina þyrlan í eigu Gæslunnar, og halda henni og tveimur leiguþyrlum úti.

stur.

Georg Lárusson, forstjóri Landhelgisgæslunnar..


Samkvæmt áætlunum um rekstur Landhelgisgæslunnar sem staðfestar eru af ríkisstjórnum þyrfti Gæslan að halda úti þremur öflugum varðskipum, flugvél og þremur til fjórum þyrlum. Nýjasta og stærsta skip flotans, Þór, hefur hins vegar meira og minna verið í landi frá því í vor og verður væntanlega ekki á sjó nema í um 150 daga á þessu ári. Þá hefur flugvélin nýja verið stóran hluta ársins í verkefnum í útlöndum.

Eitt varðskip á sjó

„Með þessum erlendu verkefnum höfum við náð að halda mannskapnum. Náð að passa reynsluna og þekkinguna sem er til hjá Landhelgisgæslunni og sloppið við að segja upp fjölda fólks,“ segir Georg.

Ef Gæslan fengi það fjármagn sem hún þyrfti segir Georg að þá yrðu a.m.k. alltaf tvö varðskip á sjó og eitt í landi, flugvélin væri allt árið í eftirlitsverkefnum sem og þyrlurnar. En frá hruni hefur einungis tekist að hafa eitt varðskip að jafnaði á sjó ásamt minni bátum sem stunda veiðieftirlit og flugvélin hefur meira og minna verið í útlöndum.

Georg segir að tekist hafi að halda öllum tækjum á nægjanlegri hreyfingu til að þau grotnuðu ekki niður. „Það er hins vegar spurning hvenær kemur að þeim punkti að það þarf að taka ákvörðun um að leggja einhverju,“ segir hann. Ef gömlu varðskipunum verði lagt, sé mjög hæpið að þau færu nokkru sinni aftur í rekstur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×