Skoðun

Snúum vörn í sókn

Snorri Sigurjónsson skrifar
Eins og sést á myndum sem hafa verið birtar að undanförnu af fossinum Dynk í Þjórsá hefur vatnsrennsli verið skert mikið eða um 40% með tilkomu Kvíslaveitu.

Lítið þarf til að gera vegslóð að þessu höfuðdjásni Þjórsárfossa þannig að sem flestir gætu notið og vel mætti hugsa sér gönguleiðir upp og niður með ánni til að skoða aðra fossa á þessu svæði. Sumir segja Dynk með náttúrulegu vatnsrennsli ekki síðri en Gullfoss og í raun furðuleg ákvörðun að hafa leyft þessa skerðingu á fossinum á sínum tíma. Sennilega gert í skjóli þess hvað fáir höfðu séð hann.

Hvort er nú meira virði að slátra þessu alveg eins og nú er áformað, eða að fara að ráðum Ómars Ragnarssonar og snúa til baka með því að auka vatnsrennslið þótt það gæti kostað einhverjar kílóvattstundir?

Fossinn Dynkur Vatnsrennsli í fossinum hefur minnkað til muna síðustu ár.
Í þessu samhengi verður mér hugsað til allra fossanna í Jökulsá í Fljótsdal sem nú eru komnir í lokuð göng. Já, það var sorglegt hlutskipti að horfa upp á það sem gerðist fyrir austan, rétt eins og um náttúruhamfarir hafi verið að ræða en ekki mannanna verk sem hægt hefði verið að koma í veg fyrir. Hefði fólk verið betur upplýst og fengið tækifæri til að njóta þess sem þarna var fórnað áður en til framkvæmda kom er ég viss um að þetta hefði aldrei orðið. 

Um aðgengi lít ég til þess undraheims sem opnaðist við að brúa Jökulsá á Fjöllum og Kreppu á sínum tíma. Það hefði kostað lítið að gera eitthvað svipað fyrir austan, t.d. að lagfæra vegslóðir og brúa Jöklu og Jökulsá í Fljótsdal inni á hálendinu þannig að fólk hefði með eigin augum getað áttað sig á þeim náttúruauðæfum sem nú hefur verið drekkt eða skrúfað fyrir. 

Það var svo sannarlega þess virði að ganga nokkrum sinnum með Jökulsá í Fljótsdal þótt sú ganga hafi verið tregafull vitandi hvaða örlög biðu allra fallegu fossanna. Minnisstæðir eru Ufsarfoss, Hrakstrandarfoss, Tungufoss, Kirkjufoss, Faxi, Stóralækjarfoss, Raufarfoss og Stíflufoss, hver með sitt svipmót umvafðir gróðri og fallegum bergmyndunum með Snæfell í baksýn. 

Hið sama má segja um Kelduá, sem fáir virðast hafa heyrt nefnda. Þar var fórnað ekki síður fallegum fossum sem ég kann ekki nöfn á nema á hinum einstaka Brúðarfossi. Meðfram ánni var mikið lífríki, fallegar eyrarrósabreiður, birki og fjöldi smáplantna sem ekki þrífast án árinnar. Þessari fegurð sem var við hvert fótmál var því slátrað líka. 

Um ýmsar framkvæmdir á landi hér hefur ríkt nokkuð góð sátt, en ömurlegt er til þess að vita að kjörnir fulltrúar með stóriðjublindu hafi orðið þess valdandi að um einstök náttúrufyrirbæri verði aðeins til sorglegar minningargreinar þegar fram líða stundir. Við sem svo auðveldlega gætum verið sjálfum okkur nóg með rafmagn án svona fórna og haft unað og raunverulegar tekjur til framtíðar af náttúrugæðum. Ekki amalegt fyrir stóriðjusinna að hafa nú fengið til liðs við sig iðnaðar- og umhverfisráðherra, ungt og kraftmikið fólk með gamaldags hugmyndir til að viðhalda vitleysisganginum!

Þetta var um fossa og enn frekari áform um að fækka þeim með aðför að rammaáætlun, en það er svo miklu, miklu meira sem okkur hefur verið trúað fyrir og er í stórhættu fyrir fólki sem misskilur hlutverk sitt. Við höfum vélarnar, tæknina og mennina til að umturna Íslandi. Nýtum þá krafta frekar til góðra verka og gleymum ekki að á umliðnum árum hefur tekist að bjarga ýmsu frá voðaverkum. Betur má þó ef duga skal til að opna augu skammsýnna manna.




Skoðun

Sjá meira


×