Skoðun

Lambakjöt, sjómennska og latté

Heiða Kristín Helgadóttir skrifar
Gleðigangan á vegum Hinsegin daga fer fram í fjórtánda skiptið nú á laugardaginn. Þegar fyrsta gangan var gengin árið 2000 tóku rúmlega 15.000 manns þátt í henni með beinum eða óbeinum hætti. Síðustu árin hefur þátttakendum fjölgað og metnaðurinn fyrir að gera gönguna sem glæsilegasta stöðugt aukist. Mest hefur þeim þó fjölgað sem taka þátt í gleðinni með því að fagna fagurskreyttum vögnum og fylkingum sem streyma í gegnum miðbæinn. Börn með kandífloss, fullorðnir með myndavélar og gamalmenni með glampa í augum standa glaðbeitt og veifa leðurhommum, trukkalessum, pallíettusprengjum og kúrekum. Í dag er fjöldi þátttakenda 80-100 þúsund manns. Á rúmlega einum áratug hefur viðhorf samfélagsins til hinsegin fólks gjörbreyst á þann veg að þessi viðburður þykir ómissandi partur af sumrinu í Reykjavík.

Líkt og dæmin sanna víða um heim er sá árangur sem hér hefur náðst ekki sjálfsagður og margar þjóðir líta til okkar sem fyrirmyndarríkis þegar kemur að mannréttindum hinsegin fólks. Það er meðal annars þessari göngu að þakka.

Gleðigangan varpar ljósi á alls konar – alls konar fólk sem er þannig og hinsegin og ekki hinsegin – en hún varpar líka ljósi á það hvað við getum verið umburðarlynd, opin, skilningsrík og óhrædd. Þannig dregur Gleðigangan það besta fram í okkur sem samfélagi og sem þjóð. Þar skiptir ekki máli hversu mikið lambakjöt þú borðar, hvort þú hafir farið á sjó eða hvort þú drekkir bara latté – því það skilgreinir ekki hver við erum.

Það sem sameinar okkur sem þjóð er hvernig við tökumst á við fjölbreytileikann sem einkennir okkur sem opið samfélag. Fjölbreytileikinn og alls konar er bara að fara aukast. Fjölgun þátttakenda í Gleðigöngunni ber þess vott að við höfum alla burði til að vera öðrum þjóðum fyrirmynd í því hvernig taka eigi þessum fjölbreytileika fagnandi.




Skoðun

Sjá meira


×