Skoðun

Vatnajökulsþjóðgarður og leiðir til uppbyggingar

Sverrir Sv. Sigurðsson skrifar
Þann 7. júní árið 2008 var Vatnajökulsþjóðgarður stofnaður formlega með léttri og skemmtilegri athöfn í Skaftafelli. Stærsti þjóðgarður Vestur-Evrópu er því fimm ára um þessar mundir og hefur vaxið og dafnað vel. Á slíkum tímamótum getur verið áhugavert að líta um öxl og velta til dæmis fyrir sér hvaða ástæður séu líklega fyrir því að lagt var til að Vatnajökull yrði friðaður. Hvaða hugmyndir höfðu verið uppi um slíkt áður en alþingismenn voru tilbúnir að samþykkja að láta umhverfisráðherra kanna möguleika á að leggja 10-15% landsins undir einn þjóðgarð, sem þeir samþykktu í mars árið 1999, þegar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkur réðu landinu?

Hin óþekkta saga Vatnajökulsþjóðgarðs

Á vefnum www.uppbygging.org hefur verið sett fram lýsing á atburðum vegna Vatnajökulsþjóðgarðs. Það eru að miklu leyti atburðir sem fáir vita af, sem eru þó (lang)líklegasta skýringin á því hvernig forsaga þjóðgarðsmálsins var í raun.

Hluti af ástæðu þess að undirritaður kemur þessu efni á framfæri er að ef til vill má einnig læra eitthvað um nýsköpun eða þróun verðmætra nýjunga. Það er nærri 21 ár frá því að undirritaður skrifaði fyrst grein um friðun á austurhluta hálendisins út frá formerkjum atvinnusköpunar og markaðssetningar á landinu. Á afmælisdegi þjóðgarðsins voru átján ár, fimm mánuðir og fimm dögum betur frá því að höfundur kynnti opinberlega viðamiklar hugmyndir að friðlýsingu Vatnajökuls og nágrennis í eina heild. Það var í fyrsta sinn sem hnitmiðaðar tillögur að friðun Vatnajökuls birtust hér á landi, að því er mér skilst á fyrrverandi félögum í Náttúruverndarráði. Miðað við opinberar áætlanir ætti þjóðgarðurinn að geta gefið af sér miklar tekjur og mörg ný störf með tímanum.

Vefurinn www.uppbygging.org

Á vefnum www.uppbygging.org er kynnt til sögunnar leið til að skoða og skilja þróun nýrra hugmynda fyrir verðmætar nýjungar, sem byggir á þessari 21 árs reynslu. Þetta er megintilgangur vefjarins. Þarna er ferlið útskýrt með líkingu við boðhlaup. Hver hluti „boðhlaupsins“ felur í sér tiltekin verkefni með mjög mismunandi nálgun. Fyrsta hugmynd er mikilvæg en aðrir hlutar einnig. Hvati að samsetningu þessara hugmynda er það hugarástand sem hefur einkennt Ísland árin eftir hrun. Ein af niðurstöðunum er einnig hvatning til að gera minna af yfirgengilegum kröfum til stjórnmálamanna en gera í staðinn kröfur á sig sjálfa, því ferli verðmætasköpunar byrjar ekki hjá stjórnmálamönnum heldur á næsta stigi á undan. Einnig kemur fram að umræddar grunnhugmyndir að friðlýsingu Vatnajökuls byggðu á því að koma skipulega til móts við alla hagsmunaaðila, í stað hagsmunatogstreitu. Þetta var friðarhugmynd sem ef til vill átti sinn þátt í að ryðja málinu leið.

Á vefnum Uppbygging.org eru einnig tenglar á vefinn sverrir.info, sem geymir allar formlegu tillögurnar sem settar voru fram 1995-1998, og á samfélagsvefinn seevatnajokull.is, þar sem fólki býðst að setja inn myndir, myndbönd og frásagnir frá heimsókn sinni í þjóðgarðinn. Í greininni er einnig mjög eindregin athugasemd um stærð Vatnajökulsþjóðgarðs sem gæti gert marga hvekkta en er þó ekki stóralvarlegt atriði. Vefurinn Uppbygging.org ætti bæði að vera áhugaverður fyrir alla með áhuga á sögu, Vatnajökulsþjóðgarði, og á nýsköpun.




Skoðun

Sjá meira


×