Skoðun

Dagurinn sem Dúlla dó

Sólveig Jónsdóttir skrifar
Fyrir ári síðan sat ég á litlum veitingastað í Srebrenica í Bosníu. Við vorum tvö, ég og Hasan sem lifði af fjöldamorðin í Srebrenica sautján árum áður. Hitastigið kitlaði þrjátíu gráðurnar og sólin skein. Vertinn kom askvaðandi, feitlaginn og hláturmildur. Hann hét Abdoullah en var alltaf kallaður Dúlla. Með hvítt, vel greitt hár, nýrakaður og stórt ör framan á hálsinum. Dúlla faðmaði Hasan, tók niður pöntunina okkar og hvarf inn í eldhús.

„Hann dó einu sinni,“ útskýrði Hasan. Dúlla hengdi sig þegar Srebrenica féll í stríðinu af ótta við að hljóta sömu örlög og yfir 8.000 menn og drengir sem teknir voru af lífi. Hasan hafði sjálfur velt því fyrir sér að svipta sig lífi en Dúlla sannfært hann um að það væri ekki rétta leiðin. „Og svo gerði hann það bara sjálfur.“ Hasan skar Dúlla niður úr snörunni og kom honum til meðvitundar. Báðir komust þeir lífs af frá Srebrenica en Hasan missti alla fjölskyldu sína, Dúlla syni sína tvo og föður. Það var í júlí fyrir tæpum tveimur áratugum. Hitastigið kitlaði þrjátíu gráðurnar og sólin skein.

Þetta er saga af sárum raunveruleika. Aldrei aftur er orðið slagorð fyrir viðbrögð alþjóðasamfélagsins eftir að þjóðarmorð hafa verið framin. Þjóðernishreinsanir í Bosníu, Rúanda og Darfúr áttu sér stað fyrir minna en tuttugu árum og vöktu upp hörð viðbrögð um allan heim. Alþjóðasamfélagið tók skýra afstöðu gegn óréttlæti og árásum á saklausa borgara. En alltaf of seint. Alltaf eftir að hörmungarnar höfðu dunið yfir. Enn á ný fáum við fregnir af mannfalli og hörmungum, nú í Sýrlandi.

„Það versta var að okkur fannst enginn hlusta og öllum vera sama um það sem var að gerast,“ sagði Hasan. Við þurfum að hlusta, láta okkur málið varða og bregðast við núna til að gera Aldrei aftur að raunhæfum möguleika. Þangað til munu þessir atburðir gerast aftur og aftur. Þangað til munu liðnar hörmungar halda áfram að bergmála í sárum raunveruleika samtímans.




Skoðun

Sjá meira


×