Skoðun

Þjóðhátíð kynslóðanna

Ragnheiður Elín Árnadóttir skrifar
„Mamma... förum við ekki örugglega aftur á Þjóðhátíð á næsta ári?“ spurði tíu ára sonur minn í fyrra þegar enn logaði glatt á blysunum í Herjólfsdal að loknum brekkusöngnum. Þetta var loforð sem mamman átti auðvelt með að gefa: „Auðvitað förum við á Þjóðhátíð á næsta ári.“ Og nú er að koma að því og tilhlökkunin er mikil hjá fjölskyldunni allri.

Það er einmitt þetta sem gerir Þjóðhátíðina svo einstaka – kynslóðirnar skemmta sér saman. Hátíðleg setningarathöfn, svignandi hlaðborð í hvítum tjöldum heimamanna, söngvakeppni barnanna, brekkusöngur, blys, flugeldar og tjútt á pallinum.

Gestrisni Eyjamanna eru engin takmörk sett, vináttan einlæg og sönn, vandamál eru ekki til – einungis viðfangsefni til úrlausnar. Og allt virðist þetta Eyjamönnum svo áreynslulaust þrátt fyrir það að vera risavaxið verkefni. Því fleiri gestir því betra – og viðkvæðið er alltaf það sama: Ekkert mál – við reddum því.

Ég fór á mína fyrstu Þjóðhátíð það herrans ár 2007, flaug fram og til baka á Bakka til að mæta í brekkusönginn á sunnudagskvöldinu. Ég hélt að ég væri að mæta á klassíska útihátíð eins og þær sem ég sótti á mínum yngri árum og því væri nóg að stoppa stutt rétt til að ná stemmningunni.

En Þjóðhátíð er svo allt annað og meira en klassísk útihátíð. Hún er fjölskylduhátíð, ættarmót, menningarveisla, ball... og hún er fyrir allar kynslóðir. Það er þess vegna sem ég er hætt að stoppa stutt á Þjóðhátíð – ég mæti fyrst og fer síðust, tek fjölskylduna alla með mér og sameinast með vinum mínum á Eyjunni fögru í gleði og söng.

Lífið er yndislegt – ég hlakka til að sjá ykkur í Dalnum.




Skoðun

Sjá meira


×