Skoðun

Stássstofa okkar Reykvíkinga

Hildur Símonardóttir skrifar
Á umliðnum árum og áratugum hefur versluninni farið hnignandi í miðborginni og í staðinn sjáum við spretta upp sífellt fleiri öldurhús með öllum þeim sóðaskap og öllu því ónæði sem næturlífi fylgir. Á sama tíma hefur miðborg Reykjavíkur orðið að mest sótta áfangastað ferðamanna á landinu. Hundruð þúsunda útlendinga sækja miðborgina heim á ári hverju og má hún heita andlit borgarinnar út á við.

En líkt og önnur andlit þarf hún að vera vel hirt. Á því er mikill misbrestur. Skrúðgarðar miðborgarinnar eru borginni lítt til sóma, beðin illa hirt, limgerði óklippt og glas illa slegið. Að sama skapi vantar víða ruslastampa og því fleygir fólk hvers kyns umbúðum á víðavangi. Að mínu mati væri rétt að virkja ákvæði lögreglusamþykktar Reykjavíkur og sekta þá sem slíkt gera. Reykingamenn fleygja sígarettustubbum á víðavangi, enda vantar sárlega ruslastanda og „stubbastanda“. Nauðsynlegt er að koma í veg fyrir þann ósið að gestir vínveitingahúsa fari út af stöðum með drykki og kominn er tími til að tekið verði hart á ölvun á almannafæri.

Annað vandamál hefur verið að ágerast, en ekki er langt síðan yfirvöld í borginni lokuðu eina almenningssalerninu í miðborginni, hinu víðfræga Núlli í Bankastræti. En til staðar eru almenningsalerni á þremur öðrum stöðum í miðborginni, á Vitatorgi, í bílastæðahúsinu á Stjörnutorgi og á Hlemmi. Öll þessi salerni eru nú harðlæst.

Snyrtilegri ásýnd

Erlendir ferðamenn kvarta sáran undan því að engin salerni sé að finna á þessum aðalferðamannastað landsins, sér í lagi á morgnana áður en veitinga- og kaffihúsin opna, en erlendir ferðamenn spóka sig gjarnan um í miðbænum snemma á morgnana. Borgin ætti að sjá sóma sinn í að opna á nýjan leik þessi fjögur almenningssalerni og kynna þau vel.

Við fasteignaeigendur í miðborginni erum látnir greiða einhver hæstu fasteignagjöld á landinu og það þrátt fyrir að verðmæti verslunarhúsnæðis á svæðinu fari hríðlækkandi. Nær væri að lækka þessi gjöld til að laða að fjölbreytta starfsemi og innheimta þess í stað þrifnaðargjöld af veitingahúsum í miðborginni, en mikill sóðaskapur er oft í námunda við veitingastaði, æla, hland og jafnvel mannasaur, og kannski ekki nema von þar sem hvergi má finna almenningssalerni á svæðinu.

Slæleg löggæsla í miðborginni hefur einnig orðið til að auka á sóðaskapinn, til að mynda hefur veggjakrot enn á ný ágerst og kostar okkur fasteignaeigendur stórfé árlega. Ég átti frumkvæði að átaki í þeim málum fyrir nokkrum árum sem skilaði svo góðum árangri að veitt voru sérstök verðlaun fyrir. Lítil löggæsla hefur einnig skapað stóraukna hættu fyrir almenning, en fólk á það á hættu að verða fyrir ránum og barsmíðum einhverra þrjóta og það jafnvel um hábjartan dag. Ef lögreglu væru veittar nægilegar fjárveitingar mætti koma þessum mönnum bak við lás og slá.

Það er orðið löngu tímabært að miðborg Reykjavíkur fái snyrtilegri ásýnd. Við viljum að heimili okkar séu vel þrifin þegar gesti ber að garði og miðborgin er stássstofa okkar Reykvíkinga.




Skoðun

Sjá meira


×