Skoðun

Hvað þarf til að borgarfulltrúar hlusti?

Björn Brynjúlfur Björnsson skrifar
Borgarfulltrúar Reykvíkinga í Besta flokknum, Samfylkingu og Sjálfstæðisflokki afgreiddu nýlega í Umhverfis- og skipulagsráði tillögu um að byggja megi hótel á Landsímareitnum.

Þetta var gert þrátt fyrir að aldrei fyrr hafi svo margir skrifað undir athugasemdir við tillögu að breytingu á deiliskipulagi. Ein þeirra var frá yfir 200 af helstu tónlistarmönnum og hljómsveitum á Íslandi og önnur með undirskriftum tæplega 18 þúsund Reykvíkinga. (Til samanburðar fékk Besti flokkurinn tæp 21 þúsund atkvæði í síðustu kosningum, Sjálfstæðisflokkurinn 20 þúsund og Samfylkingin rúmlega 11 þúsund).

Engu að síður er ekkert hlustað á allar þessar athugasemdir sem vara við marvíslegum slæmum afleiðingum risahótels á þessum reit.

Fulltrúar almennings daufheyrast

Þetta æpandi heyrnarleysi borgarfulltrúanna vekur þá spurningu hvað þurfi til að stjórnmálamenn hlusti á almenning. Eitt af markmiðum skipulagslaga er „að tryggja að samráð sé haft við almenning við gerð skipulagsáætlana þannig að honum sé gefið tækifæri til að hafa áhrif á ákvörðun stjórnvalda við gerð slíkra áætlana“.

Ef ekki er hlustað á athugasemdir yfir 20% kjósenda eins og í þessu tilviki, má þá ekki segja að lögin séu marklaus - eða framkvæmdin skrípaleikur? Eða hvað þarf til að borgarfulltrúar hlusti? Geta fjölmiðlar spurt þeirrar spurningar - og geta borgarfulltrúar svarað henni?

En borgarfulltrúarnir daufheyrast ekki eingöngu við athugasemdum almennings heldur gerir Minjastofnun nú alvarlegar athugasemdir við tillöguna. En borgarfulltrúar hafa notað það sem rök í umræðunni að Minjastofnun hafi ekki gert athugasemdir. Nú þegar þær athugasemdir eru komnar fram – heyrir enginn neitt.

Borgarfulltrúarnir hlusta heldur ekki á athugasemdir Alþingis um að fyrirhugað hótel sé ógn við umhverfi þess og öryggi. Og hér bregst borgarfulltrúunum ekki bara heyrnin - heldur sjónin líka.

Þeim var nefnilega sýnt gula spjaldið í vor þegar þáverandi forseti Alþingis lagði fram þingsályktunartillögu um að taka skipulagsvald á svæðinu af Reykjavíkurborg. Tillagan var sett fram til þess að koma í veg fyrir risahótel á Landsímareitnum en fékk ekki afgreiðslu fyrir þinglok í vor.

Komum í veg fyrir slys

Núverandi forseti Alþingis hefur lýst þeim ásetningi sínum að verja þingið og starfsemi þess fyrir þeim átroðningi, öryggisleysi og ónæði sem óhjákvæmilega fylgir stóru hóteli á þessum stað.

Forsætisráðherra hefur einnig lýst andstöðu sinni við þessi áform og vilja sínum til að grípa inn í málið ef svo heldur fram sem horfir.

Með því að koma í veg fyrir það slys sem er í uppsiglingu við Ingólfstorg og Austurvöll væri ekki einungis hlustað á viðvörunarorð stórs hluta Reykvíkinga, heldur lagður grunnur til langrar framtíðar – að bjartari og opnari miðborg – og sátt milli yfirvalda og almennings.




Skoðun

Sjá meira


×