Fótbolti

Dagný og Sara rúlla þessu upp

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dóra stefánsdóttir
Dóra stefánsdóttir
Dóra Stefánsdóttir var meðal áhorfenda á leik Íslands og Hollands á EM í Svíþjóð á miðvikudagskvöldið þegar íslensku stelpurnar tryggðu sér sæti í átta liða úrslitum keppninnar. Dóra var með íslenska landsliðinu á EM fyrir fjórum árum og er hluti af kynslóðinni sem er hvað mest áberandi í liðinu í dag. Hún þurfti hins vegar að leggja skóna á hilluna alltof snemma vegna meiðsla.

„Þetta var alveg magnað og algjör snilld,“ sagði Dóra Stefánsdóttir þegar Fréttablaðið hitti á hana fyrir utan völlinn í Vaxjö. „Ég var spennt og þetta var mjög gaman. Þær stóðu sig vel og ég er stolt af þeim,“ segir Dóra. En hvað finnst henni um miðjuna þar sem hún réð ríkjum um tíma í landsliðinu?

„Dagný er búin að vera frábær á miðjunni. Ég vil kannski ekki segja að hún hafi komið mér á óvart en ég var ekki búin að sjá hana í langan tíma og hún er búin að standa sig rosalega vel. Hún og Sara rúlla þessari miðju upp,“ segir Dóra.

„Það er allt fínt að frétta af mér en enginn fótbolti reyndar,“ segir Dóra, en ætlar hún taka fram skóna aftur? „Það er voðalega gaman að horfa og auðvitað hefði maður viljað spila svona leik en það nær varla lengra en það,“ segir Dóra en Hollandsleikurinn var fyrsti leikurinn á EM þar sem hún var í stúkunni.

„Það er smá pressa á mig að mæta og ég vona að við getum reddað miðum á restina af leikjunum,“ sagði Dóra létt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×