Fótbolti

Þær hollensku voru djarfar í yfirlýsingunum fyrir mótið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þóra Björg Helgadóttir.
Þóra Björg Helgadóttir. Mynd/ÓskarÓ
Manon Melis er stærsta stjarna hollenska landsliðsins en þessi 26 ára framherji hefur tvisvar orðið markadrottning sænsku deildarinnar (2008 og 2010). Melis lék sinn hundraðasta leik í fyrsta leik Hollands á EM.

Þóra Björg Helgadóttir, markvörður LdB Malmö og íslenska landsliðsins, þekkir Manon Melis vel en þær hafa spilað lengi saman.

„Manon er frábær leikmaður og er búin að vera með bestu leikmönnunum í sænsku deildinni undanfarin ár. Hún er gríðarlega hröð og mikill markaskorari. En hún er ekki enn þá búin að skora í þessu móti,“ segir Þóra.

Melis hefur skorað 104 mörk í 136 leikjum í sænsku deildinni og hefur spilað öll tímabil nema eitt með Malmö-liðinu.

„Við erum mjög góðar vinkonur og ég þekki hana. Ég veit það að það er naga hana að hafa ekki klárað þessi færi sín á móti Þýskalandi. Hún var mjög ólík sér í þeim færum. Ég hugsa að hún sé ekki með fullt sjálfstraust,“ segir Þóra. Þóra segir mikla pressu vera á hollenska liðinu í kvöld.

„Ég held að ekkert lið hafi fengið eins mikinn pening í sinn undirbúning og Holland. Þeir leikmenn sem eru að spila í Hollandi eru að æfa vikulega saman allan veturinn. Þær hafa í rauninni engar afsakanir og hafa ekkert að detta á ef þetta klikkar. Þær voru djarfar í yfirlýsingum fyrir mótið þannig að það er ágætis pressa á þeim,“ segir Þóra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×