Þá hefur Ásgeir Trausti fjarlægt Trausta-nafnið á aðdáendasíðu sinni á Facebook og á Youtube-rás sinni.
„Þetta voru hugmyndir sem voru alltaf á lofti en við ákváðum að kýla á þetta núna áður en það yrði of seint.“
En ertu ekki orðinn of þekktur sem „Ásgeir Trausti“ til þess að hægt sé að breyta nafninu?
„Nei, blessuð vertu. Ég hugsa að ég haldi mig nú við Trausta-nafnið hér á Íslandi, án þess að ég sé mikið að spá í þetta. Ég hugsa að það nafn sé orðið frekar fast. En svona áður en við förum á fullt úti ákváðum við bara að breyta þessu aðeins og hafa þetta einfaldara.“
Spurður að því hvort það hafi ekki verið skemmtilegt að heyra útlendingana gera tilraunir með framburð á hinu íslenska nafni, segir Ásgeir svo hafa verið.
„Það var virkilega skemmtilegt. Það komu alls konar útfærslur af nafninu og oftast hef ég bara þurft að bera það fram sjálfur.“
Það er nóg að gera hjá tónlistarmanninum um þessar mundir, en von er á enskri útgáfu plötunnar „Dýrð í dauðaþögn“.
„Við erum að æfa mikið núna og erum á leiðinni til Parísar á mánudaginn að hita upp fyrir Of Monsters and Men. Við verðum úti frá mánudeginum og alveg til 22. júlí. Á þessu tímabili munum við spila á hinum ýmsu tónlistarhátíðum og upphitunargiggum með Of Monsters.“

Ásgeir Trausti gaf út fyrstu plötu sína, Dýrð í dauðaþögn, í september á síðasta ári.
Platan seldist í um 22 þúsund eintökum fyrir jólin og hefur engin önnur frumraun selst jafn vel á útgáfuári sínu hér á landi.
Upptökum á enskri útgáfu plötunnar er lokið en sú plata ber heitið In the Silence. Það var tónlistarmaðurinn John Grant sem þýddi texta plötunnar yfir á ensku.