Innlent

Amfetamín- og rítalínfaraldur

Kolbeinn Óttarsson Proppé og Þorgils Jónsson skrifar
Karl Steinar Valsson aðstoðaryfirlögregluþjónn.
Karl Steinar Valsson aðstoðaryfirlögregluþjónn.

Metamfetamín er miklu þekktara hér á landi nú en áður fyrr. Þetta staðfestir Karl Steinar Valsson aðstoðaryfirlögregluþjónn í samtali við Fréttablaðið.

Neysla metamfetamíns einskorðaðist áður nær eingöngu við Tékkland og Slóvakíu. Það hefur verið að breiðast út um Evrópu samkvæmt árlegri skýrslu Eftirlitsmiðstöðvar Evrópu með lyf og lyfjafíkn um stöðu fíkniefnamála í Evrópu.

„Það er misjafnt hvernig framboðið er á því. Það er þó miklu þekktara nú en áður, þó að við höfum ekki verið að taka það í miklu magni; söluskömmtum eða jafnvel stærri neysluskömmtum.“ Íslenski fíkniefnamarkaðurinn dregur að miklu leyti dám af straumum og stefnum í Evrópu, segir Karl Steinar.

Í skýrslunni kemur meðal annars fram að tilbúin fíkniefni, til dæmis amfetamín og skyld efni, hafi sífellt verið að að ryðja sér meira til rúms síðustu ár. Þá er átt við efni sem búin eru til frá grunni en byggja ekki á náttúrulegum afurðum eins og kókaín eða heróín. Mörg þessara efna eru ný þannig að ekki er enn búið að banna þau. Í fyrra fundust til að mynda 73 áður óþekkt efni í ríkjum Evrópusambandsins, þar af 19 efni sem skyld eru amfetamíni og MDMA (e-töflum).

„Uppgangur amfetamíns hér á landi, eða efna sem eru skyld því, er alveg í takt við það og enn ein vísbendingin um að Ísland er í svipaðri stöðu og önnur lönd,“ segir Karl Steinar. Í evrópsku skýrslunni segir að þróunin sé að mörgu leyti jákvæð. Minni nýliðun sé í hópi heróínneytenda og sprautunotkun dragist saman og notkun á kannabisefnum, bæði hassi og maríjúana, sé á undanhaldi í mörgum ríkjum.

Ekki miklar breytingar Þórarinn segir að kannabisreykingar séu ekki samfélagslega viðurkenndari iðja nú en áður fyrr.Fréttablaðið/anton

Rítalínið er áhyggjuefnið

Þórarinn Tyrfingsson, yfirlæknir á Vogi, segir ekki hafa orðið mikil breyting á vímuefnamarkaðnum síðustu tvö til þrjú árin. Fyrir nokkru hafi rítalín, sem er löglegt lyf, komið inn á hinn ólöglega vímuefnamarkað og tekið yfir stóran hluta af neyslunni, sumir segi þriðjung eða allt að helming af markaðnum fyrir örvandi eiturlyf. „Við sjáum þetta frá Vogi að hópurinn sem er háður örvandi vímuefnum hefur notað meira af rítalíni en nokkru sinni fyrr.“

Tilbúin fíkniefni sækja fram í Evrópu

Ákveðinna umskipta gætir á fíkniefnamarkaðnum í Evrópu um þessar mundir þar sem tilbúin fíkniefni, efni sem framleidd eru úr kemískum efnum, eru að ryðja sér sífellt meira til rúms. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu frá Eftirlitsmiðstöð Evrópu með lyfjum og lyfjafíkn (EMCDDA), sem er sjálfstæð stofnun á vegum Evrópusambandsins.

Í ársskýrslu EMCDDA um stöðu fíkniefnamála í Evrópu kemur fram að þróunin sé að mörgu leyti jákvæð. Minni nýliðun er í hópi heróínneytenda, sprautunotkun dregst saman og notkun á kannabisefnum, bæði maríjúana og hassi, er á undanhaldi í mörgum ríkjum.

Slæmu fréttirnar eru hins vegar þær að merkja má aukna neyslu á tilbúnum lyfjum á borð við amfetamín í hinum ýmsu myndum en einnig verða lögregluyfirvöld vör við sífellt fleiri nýjar tegundir tilbúinna efna sem jafnvel er ekki enn búið að banna, en eru framleidd til að líkja eftir áhrifum bannaðra efna.

Í fyrra fundust til dæmis 73 áður óþekkt efni í ríkjum ESB, þar af nítján efni sem eru skyld amfetamíni og MDMA (E-töflum). Þá er að sjá að neysla metamfetamíns, sem áður einskorðaðist nær eingöngu við Tékkland og Slóvakíu, sé að breiðast út og hefur hennar orðið vart í Þýskalandi, Grikklandi, Kýpur og Tyrklandi. Fíkniefnamarkaðurinn er umfram allt afar kvikur og kallar, að mati skýrsluhöfunda, á að ríkin hagi stefnumótun eftir því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×