Íslenski boltinn

Þetta kemur allt á endanum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Garðar Jóhannsson í skallaeinvígi gegn Víkingum á dögunum.
Garðar Jóhannsson í skallaeinvígi gegn Víkingum á dögunum. Fréttablaðið/Valli

Stjörnumaðurinn Garðar Jóhannsson á enn eftir að opna markareikninginn sinn í Pepsi-deild karla þetta árið. Síðan hann kom til Stjörnunnar árið 2011 hefur biðin eftir fyrsta markinu lengst með hverju árinu. 

„Ég hafði sjálfur vel gert mér grein fyrir þessu. Þess vegna hef ég engar áhyggjur, þetta kemur allt á endanum,“ sagði markahrókurinn og Stjörnumaðurinn Garðar Jóhannsson um markaþurrð sína í maímánuðum undanfarin ár.

Frá því að hann kom aftur til Íslands og gekk til liðs við Stjörnuna árið 2011 hefur bið hans eftir fyrsta marki tímabilsins lengst með hverju árinu, eins og sést í meðfylgjandi úttekt.

„Ég hef svo sem ekki mikið pælt í þessu. Helsta skýringin á þessu nú er að ég gat lítið æft í vetur. Ég meiddist í nóvember og byrjaði að æfa í apríl. Ég er því enn á undirbúningstímabilinu – mitt tímabil byrjar í júní.“

En þó svo að Garðar hafi ekki enn skorað hefur tímabilið byrjað vel hjá Stjörnunni. Liðið hefur ekki tapað síðan í fyrstu umferð og er í fjórða sæti deildarinnar með tíu stig af fimmtán mögulegum.

„Við erum búnir að skora í hverjum leik. Hefðum við haldið hreinu í þeim værum við núna með fimmtán stig,“ sagði hann í léttum dúr. Liðið er þar að auki með nýjan þjálfara, Loga Ólafsson, og nokkra nýja leikmenn. Þeirra á meðal er Veigar Páll Gunnarsson, sem er ekki heldur búinn að finna netmöskvana í deildinni þetta tímabilið.

„Menn eru enn að spila sig saman og það er ekki eins og að þetta hafi verið slæmt hjá okkur. Árangurinn nú er betri en á sama tíma í fyrra sem er auðvitað hið besta mál.“

Garðar er greinilega ekki upptekinn af árangri sínum fyrir framan markið og setur sér til að mynda ekki markmið um fjölda marka sem hann vill skora yfir sumarið.

„Það hef ég aldrei gert og ég mun ekki byrja á því í sumar. Ég kem inn í leiki með það að markmiði að ná þremur stigum. Mér er sama hvort ég skora eða ekki,“ segir hann og bætir við: „Ef Stjarnan verður Íslandsmeistari yrði mér hjartanlega sama þótt ég næði ekki að skora eitt einasta mark.“

Tölfræði/Óskar Ófeigur Jónsson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×