Innlent

Stöðva alla bílaleigubíla í dag

„Við ætlum að stöðva öll ökutæki sem koma frá flugstöðinni,“ segir Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn á Suðurnesjum, um átak í dag þar sem kanna á ástand bílaleigubíla.

Kveikjan að átakinu er meðal annars dæmi um að óviðunandi ástand og viðhald á bílaleigubílum hafi valdið slysum á ferðafólki.

„Í gögnum lögreglu má sjá slys og óhöpp sem rekja má til lélegs ástands bílaleigubíla og hefur slíkum tilfellum fjölgað á undanförnum árum,“ segir í tilkynningu frá Umferðarstofu.

Átakið er samstarfsverkefni lögregluembætta frá Vesturlandi að Hvolsvelli með aðkomu Umferðarstofu, rannsóknarnefndar umferðarslysa, Aðalskoðunar, Frumherja og Vegagerðarinnar, sem annast útgáfu starfsleyfa bílaleiga. Um tugur lögregluþjóna mun eftir hádegi í dag koma sér fyrir við veginn frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar og sitja þar fyrir bílum þeirra sem koma með flugi.

„Við ætlum að kanna réttindi og ástand ökumanna. Bílaleigubílar verða skoðaðir sérstaklega með tilliti þess hvort skráning þeirra sé með réttum hætti og hvernig ástand þeirra er,“ segir Skúli sem kveður færanlega skoðunarstöð á staðnum verða notaða ef þörf þykir. Átakið byrjar þó raunar strax fyrir hádegi. Það verður tekið hús á hátt í tuttugu af ríflega þrjátíu bílaleigum á Suðurnesjum.

„Það á að kanna starfsleyfi, hvort ökutækin séu skráð á bílaleiguna sem er með starfsleyfið og hvort bílarnir séu skráðir sem slíkir en ekki til almennrar notkunar. Eftir atvikum á að skoða ástand ökutækjanna,“ segir Skúli sem kveður átakinu verða fylgt eftir á Suðurlandi og Vesturlandi í sumar.- gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×