Lífið

Krúttlegir Hafnfirðingar taka vel í markað

Sara McMahon skrifar
Markaður í hafnarfirði Alma Geirdal skipuleggur markað í Hafnarfirði helgina 1. til 2. júní. Fréttablaðið/Anton
Markaður í hafnarfirði Alma Geirdal skipuleggur markað í Hafnarfirði helgina 1. til 2. júní. Fréttablaðið/Anton

„Þetta er bæði flóa- og hönnunarmarkaður. Fólk getur annaðhvort selt eitthvað sem það býr til eða hluti sem það vill losa sig við eftir vorhreingerningarnar,“ segir Alma Geirdal um flóamarkað sem haldinn verður í húsnæði við Dalshraun 5 í Hafnarfirði þann 1. júní.

Alma skipuleggur markaðinn ásamt Jóni Arnari Guðbrandssyni, veitingamanni á Lemon. Um tuttugu básar eru til útleigu og hefur meirihluti þeirra þegar verið leigður út fyrir opnunarhelgina.

„Hafnfirðingar eru svo mikil krútt og flestir vilja helst ekki sækja þjónustu út fyrir bæinn. Hér verða alltaf mikil fagnaðarlæti þegar bætist við verslunarflóruna í bænum og bæjarbúar hafa því tekið vel í hugmyndina um að hér verði opnaður flóamarkaður,“ segir Alma. „Ég held að það séu bara fjórir básar enn óútleigðir.“

Alma verður sjálf með bás á markaðnum og mun selja fatnað á börn og konur. „Ég er týpískur fatasankari og ætla að nýta tækifærið og létta aðeins á fatastaflanum. Ég veit að nokkrar þekktar skvísur úr Hafnarfirðinum verða með bás umrædda helgi og fólk ætti því að geta gert góð kaup.“

Markaðurinn verður opinn frá klukkan 12 til 18 helgina 1. til 2. júní. Eftir það verður markaðurinn opinn fimmtudag til sunnudags. Hægt er að panta bás með því að senda Ölmu póst á netfangið almageirdal@gmail.com.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.