Innlent

Flugvallarstígar of áhættusamir

Isavia sagði útfærslu hugmyndar um stíga umhverfis flugvöllinn stangast á við öryggiskröfur.
Isavia sagði útfærslu hugmyndar um stíga umhverfis flugvöllinn stangast á við öryggiskröfur. Fréttablaðið/GVA
Ekkert verður af gerð stíga meðfram Eyvindará og Lagarfljóti þar sem þessi vatnsföll liggja næst Egilsstaðaflugvelli. Nokkrir íbúar sendu bæjaryfirvöldum undirskriftalista með ósk um stíga meðfram og utan girðingar umhverfis flugvallarsvæðið þannig að hægt væri að komast gangandi og hjólandi umhverfis völlinn.

Isavia, sem annast rekstur Egilsstaðaflugvallar, lagðist alfarið gegn stígagerðinni af öryggisástæðum. „Forsvarsmenn Isavia eru þó tilbúnir að fara í viðræður við sveitarfélagið um tilhögun og fyrirkomulag göngustígs sem samræmist öryggisreglum flugvallarins, en kostnaður vegna hans verði alfarið sveitarfélagsins,“ bókaði mannvirkjanefnd Fljótsdalshéraðs.

„Nefndin vekur athygli á að þetta er dýr framkvæmd og ekki fyrirsjáanlegt að sveitarfélagið hafi bolmagn í svona verkefni á næstu árum,“ hélt mannvirkjanefndin áfram. Til að koma til móts við athugasemdir íbúanna lagði nefndin til að sett yrði í greinargerð með aðalskipulagi að umferð gangandi manna meðfram Eyvindará og Lagarfljóti yrði ekki hindruð. Þessa niðurstöðu samþykkti bæjarstjórnin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×