Innlent

Reykvíkingur ársins saknar trjánna sinna

Stígur Helgason skrifar
Theodóra Guðrún heimsótti svæðið aftur í gær. Þar liggja felld tré á víð og dreif. Í baksýn má sjá tvö húsanna við Rituhóla, sem íbúar töldu að trén byrgðu útsýni úr.
Theodóra Guðrún heimsótti svæðið aftur í gær. Þar liggja felld tré á víð og dreif. Í baksýn má sjá tvö húsanna við Rituhóla, sem íbúar töldu að trén byrgðu útsýni úr. Fréttablaðið/Pjetur
„Ég er sár og leið,“ segir Theodóra Guðrún Rafnsdóttir, kennari við Seljaskóla, sem öðrum fremur á veg og vanda af ræktun skógarins í Elliðaárdal sem íbúar við Rituhóla hjuggu stórt skarð í hinn 1. maí.

Theodóra leiðbeindi hópi ungmenna sem plantaði þar trjám á sextán ára tímabili frá árinu 1979 og hefur síðan hirt um svæðið á hverju sumri ásamt hópi ungmenna með þroskaskerðingu á vegum Reykjavíkurborgar.

Íbúar við Rituhóla, ofan við trjálundinn, tóku sig til hinn 1. maí og söguðu niður hundruð trjáa sem þeir töldu byrgja sýn úr húsum þeirra. Umsjónarmaður skógarins gagnrýndi þetta harðlega og kærði skógarhöggið til lögreglu.

Theodóra rölti sjálf um svæðið daginn eftir, á fimmtudaginn í síðustu viku. „Mér varð um – ég fékk áfall. Þetta er alveg hræðilegt,“ segir Theodóra, sem í fyrra var útnefnd Reykvíkingur ársins fyrir störf sín við með ungmennunum við uppgræðsluna í Breiðholtshvarfi og Arnarbakka.

Hún kveðst ekki gera sér grein fyrir því hversu mikil vinna hafi verið lögð í uppgræðslu og umhirðu trjánna. Eðli málsins samkvæmt hafi það hins vegar verið dágóður tími á rúmum þrjátíu árum.

Theodóra segir nokkur ungmennanna sem hún vinnur með á sumrin hafa haft samband við hana eftir að fréttir bárust af skemmdarverkinu, miður sín yfir stöðunni.

„Strax á föstudagskvöldið var byrjað að hringja. Ein spurði bara: Thea, hvað getum við gert?“ Hjá henni hafi hins vegar verið ósköp fátt um svör – þau þyrftu einfaldlega að bíða eftir viðbrögðum borgaryfirvalda.

„Þau eru að sjálfsögðu sjokkeruð. Uppistaðan í hópnum er sömu krakkarnir ár eftir ár og auðvitað þykir þeim vænt um svæðið.“

Og Theodóru finnst miður að íbúarnir hafi valið að fara þessa leið. „Ég hugsa að fólkið sjái Esjuna úr gluggunum – en kannski vill það sjá ána, ég veit það ekki. Það sem manni þykir eiginlega verst er að fólkið kunni ekki að meta það skjól sem trén veita því.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×